18.2.2009 | 11:10
með mildi má illt sigra
Þessa dagana er mikið spáð og spekúlerað um stjórnmál, fjármálaklúður, bankabófa, útrásarvíkinga og annað álíka geðslegt. Í gær komst ég á tal við mann sem hafði sniðugar hugmyndir í kollinum, hugmyndir sem ég hef engan heyrt nefna áður. Þ.e. að bjóða "sukkurunum" að leggja fjármuni sína í íslenska banka í stað þess að kyrrsetja eigur þeirra. Í staðinn fengju þeir uppreisn æru, að því gefnu að þeir yrðu ekki fundnir sekir um stórfelld fjársvik eða annað ólöglegt. Þannig mætti koma smá fótum undir bankarústirnar og sukkararnir gætu gengið óhultir um göturnar. Persónulega finnst mér þetta óþarflega mild hugmynd, en hafi umræddir sukkarar ekkert til saka unnið samkvæmt lögum þá ættu þeir ekki að þurfa að óttast neitt. Séu þeir hinsvegar sekir um ólögleg athæfi þá eiga þeir auðvitað að taka út sína refsingu. Þeir ættu kannski að hafa í huga orð biblíunnar þar sem segir m.a. að sannleikurinn gjöri mann frjálsan.
Að allt öðru. Í miklu bjartsýniskasti sótti ég um vinnu á Héraðsskjalasafninu hér í bæ og held ótrauð í vonina þar til niðurstaðan liggur fyrir. Þetta ber ekki að skilja þannig að ég hafi ekki nóg að gera eða sé að hætta á bókasafninu. Fjárhagsleg heilsa mín er bara að niðurlotum komin og þetta er tilraun til að bæta hana. Eftir mikla útreikninga og pælingar komst ég nefnilega að því að fjárhagsendarnir ná engan veginn saman á milli mánaðamóta. Þó að ég sé á góðri leið með að verða sérfróð um ómaga og niðursetninga á síðari hluta 19. aldar þá vil ég síður þurfa að segja mig til sveitar.
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.