Bloggfærslur mánaðarins, október 2008
22.10.2008 | 12:11
af ergi er nú önd mín sár...
Nú er ég reið og ég er örugglega ekki sú eina sem finn fyrir þessari vondu tilfinningu. Ekki svo að skilja að kreppan sé farin að bitna illa á mér eða mínum nánustu, heldur á ég mjög erfitt með að kyngja svona helv. óréttlæti!
Þessir háttvirtu bankastjórar sem lifðu í vellystingum með fleiri tugi milljóna í laun á mánuði hafa gert í buxurnar og ætlast til þess að við, sauðsvartur almúginn, þrífum skítinn eftir þá! Þessi apparöt sem afsökuðu ofurlaun sín með áríðandi verkefnum og mikilli ábyrgð ættu að sjá sóma sinn í því að axla þessa svakalegu ábyrgð þegar á þarf að halda. Neinei þá eru þeir skyndilega fríir og frjálsir nema þeir eru með skítugar brækurnar á hælunum.
Réttlætiskennd minni er svo stórlega misboðið að mér er skapi næst að flytja til Noregs. Við, sauðsvartur almúginn, fundum minnst fyrir útrásinni og berum nákvæmlega enga ábyrgð á henni, hvers vegna í ósköpunum eigum við að sitja í súpunni þegar allt er farið í vaskinn??? Mín vegna mega þessir háu herrar vera áfram með allt niður um sig . ég ætla EKKI að þrífa óhroðann eftir þá!
Nú er nóg komið af pirringi í bili. Það er ekki hægt að vera reiður í svona fallegu veðri. Það er hreint yndislegt að sjá Fellin speglast í Lagarfljótinu og sjá sólina glampa á snævi þakinni Fellaheiðinni. Slík fegurð gefur manni endalausa orku og trú á lífið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.10.2008 | 11:56
Í draumi sérhvers manns...
Í draumi sérhvers manns er fall hans falið þetta ljóð Steins Steinarrs hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér, ekki síst þessi spaklega ljóðlína. Hver hefur ekki lent í því að falla vegna drauma sinna? Hver hefur ekki séð drauma sína gufa upp og hverfa út í eilífðina? En þó að draumarnir verði manni oft að falli þá held ég að lífið væri óttalega tómlegt án þeirra. Held að þeir séu hreint og beint nauðsynlegir til að við getum sett okkur hin ýmsu markmið í lífinu.
En niður á jörðina í gærkvöldi ætlaði ég að fara á smá uppákomu á Héraðsskjalasafninu í tilefni aldarafmælis fyrrnefnds Steins Steinarrs. Heimasætan, sem var nýkomin heim frá pabba sínum, var þó ekki alveg sátt við að mamman væri á einhverju útstáelsi. Þegar ég tilkynnti henni að ég ætlaði að skreppa út og pabbi hennar myndi koma og lesa fyrir hana tók litla stýrið um hálsinn á mér og sagði með grátstafinn í kverkunum: mamma, viltu bara vera hjá mér í kvöld? Það er skemmst frá því að segja að sú gamla bráðnaði gjörsamlega og hugsaði í anda Gunnars á Hlíðarenda Yndisleg er dóttirin svo ég fer ekki fet.
Ég tók ritgerðarefnið mitt úr salti í gærmorgun. Hvort sem það var útvarpsmessunni sem hljómaði á bak við eða einhverju öðru að þakka þá skyndilega kviknaði smá ljós. Ég skildi smávegis og ætla að reyna að blása í þær litlu viskuglæður um leið og færi gefst
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2008 | 10:53
Ljóðin allt um kring
Enn ein helgin að baki og ég held svei mér þá að veturinn sé líka að baki... a.m.k. um stundarsakir. Núna er ósköp milt veður sem minnir helst á apríldag.
Hvað um það, helgin var fín þó að ekki næði ég að klára ljóðagreininguna eins og stefnt var að. Það skipti svosem ekki öllu máli því skilafresturinn var framlengdur til föstudags. Annars er ég langt komin með ritgerðina...held jafnvel að það geti verið einhver smá glóra í henni hjá mér :) Klára hana eitthvert næsta kvöldið.
Aðeins að vinnunni, en þar snýst margt um Stein Steinarr þessa dagana. Ég er að undirbúa Steinsdaga á bókasafninu og í hinni vinnunni erum við að skipuleggja smá uppákomu til minningar um sama Stein. Þeim mun meira sem ég fræðist um hann þeim mun meiri aðdáandi verð ég. Ekki nóg með að maðurinn sjálfur hafi verið mjög sérstakur og kannski misskilinn af sinni samtíð, heldur eru mörg ljóð hans hrein snilld...nefni bara "Í draumi sérhvers manns" sem dæmi. Það er bæði snilldarlega ort og hárbeittur sannleikur sem liggur þar að baki.
Smá pæling að lokum... eiga þeir Steinn Steinarr og Sigurður Pálsson eitthvað sameiginlegt í sinni ljóðagerð?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.10.2008 | 12:30
lítið eitt um kvennaskap
Ég hef ekki enn náð þeim þroska láta neikvæð viðbrögð annarra ekki hafa áhrif á mig. Ein neikvæð athugasemd eða eitt óþægilegt símtal getur þannig gjörsamlega eyðilagt fyrir mér heilan dag! Nú er tækifæri til að breyta þessu. Eftir ágæta byrjun á deginum átti ég stutt símtal við konu sem ég þekki ekki neitt umfram nafnið. Til að gera langa sögu stutta þá náði hún gjörsamlega að hakka mig í spað þannig að ég var ekki meira virði en rykkorn á gólfinu eftir samtalið.
En eins og ég sagði, nú er tækifæri til að rísa upp sterkari en áður. Konutuskan hefur örugglega einhverjar ástæður fyrir fúllyndi sínu... túrverki? ...breytingaskeið? konur hafa endalausar afsakanir fyrir skapsveiflum sínum :)
Hennar fýla er hennar mál og kemur mér ekki við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar