Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
24.11.2008 | 22:19
skrítin tík, rómantíkin
Í dag ætla ég ekkert að nöldra eða skammast. Ég ætla ekki einu sinni að minnast á efnahagsmál, kreppu, útrásarklúður, banka né neitt sem tengist pólitík. Hef samt heyrt að félagi Steingrímur hafi verið eitthvað í þungu skapi í dag. Hann verður eins og aðrir að hafa gát á tungu sinni þó hann sé mælskur.
En ólíkt Steingrími þá er ég yfirmáta hamingjusöm þessa dagana. Fyrir því liggja ýmsar ástæður. Nokkrar verða nefndar hér en ekki allar Í dag kláraði ég tvær litlar ritgerðir í bókmenntafræði og sendi þær til kennara. Veit ekki hvort eitthvað vit var í þeim, en engu að síður, ég er laus við þær og get farið að hugsa um BA ritgerð og próf. Veðrið hefur verið alveg yndislega gott undanfarna daga, ekta Héraðsveður, froststillur og smá snjór. Jólaljósin spretta upp eins og gorkúlur í hinum ýmsu gluggum og við mæðgur erum komnar í mikið jólaskap. Þetta er eiginlega allt svo rómantískt að það er ekki hægt annað en að vera ástfanginn og ég held svei mér þá að ég sé það bara
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2008 | 13:34
framsóknarsteypan
Það á ekki af framsóknarmönnum að ganga þessa dagana þegar tveir mestu málsvarar hans eru horfnir af þingi. Hvernig væri nú að ríkisstjórnin færi að fordæmi þeirra sunnlensku framsóknarmanna og segði af sér? Nei, það hvarflar ekki að þessum háttvirtu ráðherrum sem halda áfram að draga okkur á asnaeyrunum. En til að fyrirbyggja allan misskilning þá er ég ekki framsóknarmaður. Það er hinsvegar missir að þessum tveimur heiðursmönnum af þingi.
Áfram með framsóknarmenn... það var hreint ótrúlegt að heyra í Valgerði í Kastljósinu í gærkvöldi. Hún ber sko enga ábyrgð á sölu bankanna þó að hún hafi verið ráðherra bankamála þegar þeir voru seldir. Fyrir hvað fá ráðherrar laun ef þeir bera enga ábyrgð í starfi sínu? Í staðinn minnti hún á það roggin á svip að hún hefði nú verið iðnaðarráðherra líka og bjóst örugglega við húrrahrópum vegna álvers og virkjunarframkvæmda hér eystra. Veit konan um ÖLL áhrifin sem þetta álæði hefur haft hér á Austurlandi? Veit hún um könnunina sem Háskólinn á Akureyri gerði um væntanlega fjölgun íbúa og var stungið undir stól af því hún var ekki nógu hagstæð stjórnvöldum? Veit hún hvaða áhrif þetta hefur haft á mannlífið? Nei, auðvitað ekki. Þau áhrif eru ekki nógu hagstæð. Í þessu gullgrafaraæði gleymdist nefnilega að hugsa um fólkið. Áherslan var öll á það að sýna hversu stórkostlegar framkvæmdir þetta væru og önnur eins uppbygging hefði aldrei átt sér stað.
Annað viðtal í Kastljósi gladdi mig hinsvegar mikið. Það var þegar Steingrímur J. sagði frá þeirri vinnu sem verið er að vinna hjá VG við kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu. Hann útilokar ekkert í þeim efnum en tekur engar fljótfærnisákvarðanir. Það er einmitt það sem stjórnvöld þurfa að gera. Engar skyndiákvarðanir sem markast af eiginhagsmunum og græðgi, heldur skoða málin frá öllum hliðum og taka svo ákvörðun með hagsmuni allrar þjóðarinnar í huga. Þarf nokkuð að taka fram hver er mitt átrúnaðargoð í þingsalnum? :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.11.2008 | 11:02
frá endi til upphafs
Aumingja Bjarni. Það er álit mitt og margra annarra að þarna hafi rangur maður sagt af sér þingmennsku. Vissulega gerði hann mistök, en þau mistök eru smámunir hjá þeim viðbjóði sem frú Valgerður hefur framkvæmt...eða horft framhjá á sínum þingmannsferli. Munurinn á þeim er sá að Bjarni hafði manndóm til að biðjast afsökunar og segja af sér en það hefur Valgerður ekki því hún er of siðblind til að sjá mistök sín. Þannig er því miður meirihluti þingmanna og ráðamanna þjóðarinnar. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir þjóðina að koma þessu samansafni siðblindra aurapúka úr valdastólunum og hleypa að fólki sem ber hag þjóðarinnar fyrir brjósti.
Undanfarið hafa komið fram margar hugmyndir sem mér finnst vert að skoða betur. Tveir hagfræðispekúlantar segja t.d. að hægt sé að skipta um gjaldmiðil á einni viku. Af hverju ekki skoða það? Félagsfræðingar vilja líta á ástandið sem tækifæri til að efla sprotafyrirtæki og smáiðnað... frábær hugmynd. Einhvern tíma sagði góður maður þessi spaklegu orð: "Endir eins er alltaf upphaf einhvers annars". Á það ekki vel við núna þegar góðæri (sumra) er á enda og margir eru tilneyddir til að breyta um lífsstíl?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.11.2008 | 13:07
Ritgerðir á ritgerðir ofan
Nú má ég til með að hrósa ágætum kennara mínum fyrir liðlegheit. Ég þarf ekki að fara til Reykjavíkur :) Í staðinn má ég skila skýrslu um leikritið Góðverkin kalla sem sagt var frá í síðustu færslu. Þá ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að ég klári bókmenntafræðina án vandræða. Nú er bara að hespa af einni ritgerð um Sandárbókina eftir Gyrði Elíasson og þetta margumrædda leikrit og fara svo að lesa fyrir próf. BA ritgerðin fær líklega að liggja lengur í saltinu.
Til viðbótar þessu ritgerðafargani þá gengur vinna mín að miklu leyti út á það þessa dagana að aðstoða menntskælinga við heimildaleitir því að þeir eru líka í ritgerðasmíðum. Það er virkilega gaman, enda skemmtilegir krakkar upp til hópa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.11.2008 | 12:50
Góðverkin
Jæja, nú er nóg komið af kreppuvæli í bili. Vona bara að þeir sem ábyrgð eiga að bera kunni að skammast sín þó að þeir hafi ekki enn sýnt þjóðinni þá lágmarksvirðingu að biðja hana afsökunar.
Það bar hæst um helgina að ég fór á leiksýningu í Valaskjálf þar sem Leikfélag Fljótsdalshéraðs sýndi gamanleikinn Góðverkin kalla. Mjög skemmtileg sýning í alla staði og efnið passar vel inn í þetta kreppuumhverfi sem nú ríkir. Persónurnar voru úr ýmsum áttum, leikmyndin einföld og handritið fullt af því sem mætti kalla aulahúmor. Leikararnir voru líka missterkir á sviðinu, en einn þeirra bar þó höfuð og herðar yfir aðra. Það var Ásgrímur Ingi, fréttamaður, sem fór hreinlega á kostum í hlutverki hins geðveika bankamanns Jökuls Heiðars. Þetta var svona verk sem kannski skilur ekki mikið eftir sig en engu að síður þrælgóð skemmtun því hláturinn lengir lífið.
Svo er bara að sjá hvort háttvirtum kennara mínum þykir þetta nógu virðulegt verk til að skrifa um það smá skýrslu. Það var nú einmitt tilgangurinn með þessari leikhúsferð
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2008 | 14:30
Pólitískur pirringur, kosningar strax!
Það verður ekki annað sagt en útkoma úr nýrri skoðanakönnun Gallup hafi verið gleðileg fyrir okkur sem höllum til vinstri. Loksins er Sjálfstæðisflokkurinn að fá þann rassskell sem hann á skilið. Þess vegna hvet ég alla sem mögulega geta til að taka þátt í mótmælagöngu gegn stjórnvöldum kl. 3 í dag. Spurning hvort ég fer ekki einsömul í mótmælagöngu um Egilsstaði. En við viljum kosningar eigi síðar en núna strax! Þessir háu herrar hafa fengið sitt tækifæri sem þeir hafa klúðrað all svakalega. Það er kominn tími til að hleypa öðrum að!
Í fúlustu alvöru þá held ég að það sem hrjáir Davíð Oddsson sé einhverskonar Hitlersheilkenni. Maðurinn hefur haft allt of mikil völd í of langan tíma. Það er bara ekki hollt fyrir nokkurn mann að hafa svona mikil völd. Nú ætti hann að hafa vit á því að stíga til hliðar og hætta þessu andsk. baktjaldamakki. Aðrir sjálfstæðismenn eru þvílíkar strengjabrúður í kringum hann að það er hreint og beint grátlegt að sjá það. Ég meina það, hafa sjálfstæðismenn enga sjálfstæða hugsun???
Þetta var pirringspistillinn. Mikið hefur verið talað um Ólaf Stefánsson og viðtal Evu Maríu við hann síðustu daga. Ég er ein af þeim sem heillaðist gjörsamlega af manninum og ótrúlegri speki hans. Það væri gaman að sjá slíka viskubrunna í stjórnmálum. Hann taldi m.a. rétt að ýmsir stjórnmálamenn og aðrir sem bera ábyrgð á efnahagsástandinu ættu að stíga fram og biðja þjóðina afsökunar eins og hann hefði sjálfur gert eftir að hafa spilað illa á stórmóti. Mér vitanlega hefur enginn ráðamaður tekið þessi orð til sín. Það þýðir að handboltamaðurinn og heimspekingurinn Ólafur er mun ábyrgðarfyllri maður en þær aumu aurasálir sem stýra þjóðarskútunni.
Ég var annars mjög stolt af sveitungum mínum í Útsvari í gærkvöldi. Það má segja að þau hafi rúllað Eyjapeyjunum upp með stæl. Nú bíð ég bara eftir að Fljótsdalshérað mæti Hornfirðingum held samt að í þeirri stöðu myndi ég halda með Hornfirðingum.
Einn gengisfallinn brandari í lokin: Hvað gerist ef þú setur apa inn í herbergi þar sem fyrir eru Davíð Oddsson og George Bush? .greindarvísitalan hækkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar