Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

spillingarsúpa með grillaðri heimsku

Jæja, nú er komið að smá nöldri. Hvernig í ósköpunum dettur ráðamönnum þjóðarinnar í hug að skera niður fjármagn til Háskólans? Og hvað á það að þýða að drepa niður þá vaxtarsprota sem fylgja háskólasetrum um allt land? Með þessu er beinlínis verið að sýna ungu menntafólki fingurinn og segja því að hypja sig úr landi. Það hljómar ekki mjög skynsamleg leið þegar menntunarstig þjóðarinnar er orðin hennar helsta auðlind. Ætlar þessum heimskupörum stjórnvalda aldrei að linna?

Næsta nöldur, hvers vegna í ósköpunum eru ekki fengnir erlendir, algjörlega óháðir aðilar til að rannsaka ofan í kjölinn þá spillingarsúpu sem við erum að sökkva í? Jú, það gæti komið sér illa fyrir einhverja. Hefur enginn nógu hátt settur ráðamaður nógu mikið bein í nefinu til að taka af skarið og segja hingað og ekki lengra? Að nú skuli kallaðir til alveg óháðir aðilar til að skoða spillingarsúpuna.

Látum þetta gott heita af nöldri í bili. Ég er hér með komin í jólafrí og ætla að hella mér í það jólastúss sem eftir er, gjafakaup, kortaskrif, bakstur, tiltekt og þrif. Veðrið er enn jafn hrikalega fallegt og rómantískt, 12 stiga frost og næstum logn. Þetta er yndislegur árstími þó að dagarnir séu stuttir :)


jólasveinar, skata og rómantík

Það er ekki ofsögum sagt af töframætti jólasveinanna. Síðan fyrsti bróðirinn kom til byggða hefur heimasætan í Hléskógum séð til þess að herbergið hennar sé alltaf snyrtilegt og fínt í dagslok því ella gæti sveinki hætt við að setja nokkuð í skóinn. Og þrátt fyrir dimma morgna þá er sú stutta fljót á fætur til að kíkja í skóinn. Svo virðist sem jólasveinarnir séu óvenju hagsýnir þetta árið því oftar en ekki er eitthvað nytsamlegt í skónum, t.d. sokkabuxur, vettlingar og fleira sem skóeigandann vantar sárlega. En ég veit svei mér ekki hvor hefur meira gaman af þessu jólasveinastússi, ég eða Eva Pálína.

Við nágrannakonurnar erum að undirbúa heljarinnar skötuveislu á þorláksmessu með dyggri aðstoð þeirra sjómanna sem næst mér standa, pabba og Unnsteins bróður, sem hafa séð okkur fyrir sjávarfangi. Fyrir utan að vera hinn besti matur þá hef ég tröllatrú á lækningamætti skötunnar. Fyrir síðustu jól lá ég í pest í nokkra daga og myndi líklega liggja enn ef ekki hefði komið til þorláksmessuskatan með tilheyrandi ilmi… eða fnyk :)

Hér er ennþá þetta yndislega, rómantíska jólaveður. Hvít jörð, froststillur dag eftir dag og glampandi tunglskin á kvöldin. Þess vegna segi ég enn og aftur, er hægt annað en vera ástfanginn í svona veðri?


Virkjun vitundarflæðis

Jæja, þá er prófinu lokið og ég þar með hálfkomin í jólafrí. Vissulega mikill léttir og miðað við aðstæður og undirbúning þá gekk prófið alveg þokkalega. Skilaði háfleygri úrlausn sem var einskonar allegórísk bakklifun, byggð upp á rómantískri tvíhyggju og virkjuðu vitundarflæði... eða með öðrum orðum algjör steypa. Vitundarflæði mitt var semsagt ekki virkjað, heldur var það stíflað. En prófið er búið og nú getur maður ekki annað en beðið dóms.

Næsta mál á dagskrá er rannsóknaráætlun og áframhaldandi vinna við BA ritgerðina og að sjálfsögðu áframhaldandi jólastúss á heimilinu með dyggri aðstoð Evu Pálínu :) Það eru semsagt ekki nema skemmtilegir tímar framundan... svo lengi sem maður hugsar ekki of mikið um fjármálahliðina.


Jólabókajólaraus

Í dag ætla ég ekki að minnast orði á neitt sem fer í taugarnar á mér... ekki Davíð, kreppu, þjóðargjaldþrot eða neitt annað sem flestir vilja lengst út í hafsauga.

Fyrir skemmstu fór ég á bókavöku í Safnahúsinu hér á Egilsstöðum. Uppákoman var samstarfsverkefni allra safnanna í húsinu og sýnir vel þann góða starfsanda og samheldni sem ríkir undir þaki þessa hálfbyggða húss. Þarna var lesið upp úr nokkrum nýjum austfirskum bókum og fleiri voru kynntar. Það er gaman að sjá hvað Austfirðingar hafa verið iðnir við skriftirnar á þessu ári og hve fjölbreyttir höfundar og bækur þeirra eru. Það eru sko engin kreppueinkenni í bókaútgáfunni - eða hvað? Jú, undanfarin ár hafa höfundar og útgáfufyrirtæki gjarnan látið prenta ritverk fyrir utan landsteinana. Í ár eru þessu öðruvísi farið, nær allt er prentað innanlands sem út af fyrir sig er hið besta mál. En það er vonin að gróskan í skriftum austfirskra rithöfunda sem og kollega þeirra í öðrum landshlutum haldi áfram, enda væri þá lítið eftir af þjóðinni ef hún hætti að hafa áhuga á bókum.

Þessa dagana er ég annars á kafi í próflestri - ásamt öllu öðru sem er að kaffæra mig. Ég á voða erfitt með að einbeita mér að bókmenntafræðinni, finnst hún óttalegt torf. En það þýðir víst ekki annað en að reyna. Eins og mér er mein illa við próf þá finnst mér þau tilheyra jólaundirbúningnum, rétt eins og smákökubaksturinn, jólagjafakaupin og skatan á þorláksmessu. Aðventan er yndislegur árstími :)


Nei Davíð, Nei!!!

Nú er ég svo aldeilis gjörsamlega forbit. Held að íslenska þjóðin þurfi margt frekar en afturgöngu Davíðs Oddsonar í pólitíkinni. Þessi persónugervingur valdagrægði og hroka ætlar virkilega aldrei að láta sér segjast. Nú hótar hann endurkomu í pólitíkina verði hann þvingaður úr Seðlabankanum. Þurfum við á því að halda að skapari þessa einkavædda fjármálaskrímslis sem er að éta okkur öll, snúi til baka í pólitíkina? Nei, það held ég varla. Þessi hugmynd hans er að mínu mati ekkert annað en óvirðing við þjóðina, þvergirðingsháttur, hroki og yfirgangur á hæsta stigi.

 Af hverju getur maðurinn ekki fundið sér eitthvað annað að gera? Eitthvað sem skaðar ekki þjóðina. Hann er til dæmis þokkalega ritfær, af hverju fer hann ekki bara upp í sumarbústaðinn sinn og helgar sig skriftum? Hans valdatími er liðinn, af hverju getur hann ekki sætt sig við það? Þeir félagar Davíð og Björn Bjarna væru örugglega fínir heima hjá öðrum þeirra í tindátaleik þar sem þeir gætu leikið með íslenskar krónur (úr plasti), vopnaðar sérsveitarlöggur (úr plasti) og önnur hugðarefni sín (úr plasti). Bara að þeir fari að hleypa öðrum í valdastólana.

Í leikskóla dóttur minnar er starfað eftir kerfi sem byggir á áminningum (Töfrar 1,2,3). Við fyrsta og annað brot fá börnin áminningu en brjóti þau af sér í þriðja sinn þurfa þau að sitja á stól í tiltekinn tíma. Er ekki tími til kominn að Davíð stígi niður úr valdaturni sínum, setjist á koll úti í horni og hugsi um afleiðingar gjörða sinna eins og leikskólabörnin þurfa að gera? Hann hefur fengið áminningar án þess að láta sér segjast.


Bókaflóð

Þegar jólabókaflóðið skellur á er óhemju gaman að vera bókavörður...væri örugglega enn skemmtilegra ef stofnunin ætti nægan pening til bókakaupa. En þökk (lesist sem öfugmæli eða háð) sé græðgi og hroka íslenskra ráðamanna undanfarin ár sem hefur orsakað þetta auma efnahagsástand, þá er því ekki alveg að heilsa. Vonandi fæ ég þó að kaupa slatta af nýjum og spennandi bókum fyrir og eftir jól.

Um daginn fékk ég nýútkomna, austfirska bók í hendur. Hún heitir Þræðir og er einskonar minningarrit um Hrafnkel A. Jónsson. Virkilega falleg og vel gerð bók sem inniheldur greinar um og eftir Hrafnkel heitinn. Orð Arndísar, samstarfskonu hans til margra ára, lýsa hans vísdómi sennilega betur en hún segir aftan á bókarkápu: "Ég hef engan mann þekkt sem hefur haft jafngóða þekkingu á sögu íslenskrar þjóðar og stundum fannst mér hann hafa verið samtíða fólki á öllum öldum". Þannig var Hrafnkell, fróðleiksbrunnur og einstakt góðmenni.

Líkt og um daginn er rómantíkinn enn alls ráðandi þó núna sé hún að mestu bundin við veðrið og jólaskapið. Við mæðgur erum samtaka í því að skreyta heimilið og baka smákökur. Ótrúlegt hvað jólastússið verður miklu skemmtilegra með aðstoð þessa fjögurra ára gleðigjafa :)

 


Höfundur

Hulda Sigurdís
Hulda Sigurdís
Höfundur er þjóðfræðingur, sagnfræðingur, bókavörður, húsmóðir, sveitastelpa og margt fleira. Fædd og uppalin á Hornafirði, en hef verið búsett á Egilsstöðum síðan 2003. Á eina átta ára dóttur sem heitir Eva Pálína.

Bloggvinir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband