Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Það sem bara kallar geta gert...

Ég átti mjög athyglisverðar samræður við dóttur mína, Evu Pálínu á leiðinni í leikskólann í morgun. Þegar hún horfði á eftir stóru systur sinni á leið í vinnuna fór litli spekingurinn að spá í tilgang vinnunnar. "Hvers vegna þurfa allir að vinna?" spurði hún af eðlislægri forvitni þriggja ára barns. Gamla mamman reyndi að útskýra á einfaldan hátt samhengi vinnu og peninga og ég held að spekingurinn hafi skilið það mæta vel því í beinu framhaldi af þessum pælingum var farið að spá í framtíðarstarf. Vinna í gróðurhúsi eins og pabbi, á bókasafni eins og mamma, vera bóndi eins og afi og amma? Þá segir þriggja ára spekúlantinn af fullri alvöru: "Bara kallar geta verið bóndar". Við frekari umræður fékk ég að vita það að bara kallar geta verið sjómenn og prestar og bara konur geta verið kennarar. Hinsvegar gæta bæði kallar og konur verið læknar.

Það var hugsandi mamma sem kvaddi litla spekinginn sinn í leikskólanum. Hvaðan hefur barnið þessar "jafnréttishugmyndir"? Jú, hún hefur sennilega bara séð karlmenn í hlutverki sjómanna eða presta og kennararnir í leikskólanum eru eingöngu konur. En hún var alveg með það á hreinu að bara afi er bóndi, amma er bóndakona. Afi á svínin en amma á hænurnar. Athyglisvert þar sem sú stutta hefur oft verið með ömmu sinni í svínahúsinu og sér hana taka þátt í bústörfunum ekkert síður en afann.

Ég er hér með hætt að kalla mig feminista þó að ég voni að jafnréttisskoðanir dótturinnar eigi eftir að breytast með tímanum. Kynin eru svo gjörólík frá fæðingu, stelpur eiga að fá að vera stelpur og strákar eiga að fá að vera strákar. Að sjálfsögðu eiga svo þau störf sem þau velja sér í framtíðinni að vera metin á jafnréttisgrundvelli en ekki út frá kyni. Þess vegna segi ég enn og aftur, kennarar eiga að vera hálaunafólk... og hana nú!


Austur og vestur

Það eru heldur slæmar fréttir af Vestfirðingum þessa dagana og hættulegum áhuga þeirra á olíuhreinsunarstöð. Ég vona bara þeirra sjálfra vegna að ekkert verði úr þeim framkvæmdum. Ekki það að mér sé illa við Vestfirðinga, heldur finnst mér svo margt líkt með "vælinu" í þeim og með vælinu í Austfirðingum hér á árum áður. Stóriðja átti að bjarga Austfjörðum. Nú er álverið risið, hálendið komið undir vatn og allt er svo ægilega gaman... eða hvað? Í sjónvarpsfréttunum í gærkvöldi var fjallað um eina mannlega hlið framkvæmdanna, hjónaskilnuðum á Austurlandi hefur nefnilega fjölgað óheyrilega mikið. Þessi athyglisverða frétt staðfesti í rauninni það sem ég hef lengi haldið fram, að fólkið hefur gleymst. Gullgrafaraæðið og aurahyggjan hefur verið þvílík að það hefur gleymst að hugsa fyrir fólkinu sjálfu og hvernig því líður að búa á Austurlandi. Ég stend á því fastar en fótunum að stóriðjuframkvæmdirnar á Austurlandi hafi verið of stór biti fyrir fámenn byggðalög. Þess vegna vona ég að Vestfirðingar finni sér eitthvað annað að gera en hugsa um olíuhreinsunarstöð. Hvað með einstaklingsframtakið? Væri ekki gæfulegra að efla vestfirsk smáfyrirtæki? Leyfa einstaklingsframtakinu að blómstra? Ég þykist vita að Vestfirðingar séu duglegt fólk sem er fullt af hugmyndum. Mér finnst því illt ef þeir ætla að falla í sömu gryfju skammsýnnar aurahyggju og Austfirðingar.

Ég vil annars taka það fram að það er fínt að búa á Egilsstöðum, en það er ekki stóriðjuframkvæmdum að þakka, heldur staðháttum og veðurfari.  


Höfundur

Hulda Sigurdís
Hulda Sigurdís
Höfundur er þjóðfræðingur, sagnfræðingur, bókavörður, húsmóðir, sveitastelpa og margt fleira. Fædd og uppalin á Hornafirði, en hef verið búsett á Egilsstöðum síðan 2003. Á eina átta ára dóttur sem heitir Eva Pálína.

Bloggvinir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband