Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Daglegt líf

Suma daga er meira að gera en aðra daga og sumar vikur eru að sama skapi annasamari en aðrar vikur. Þessi vika sem nú er hálfnuð hefur verið allsvakaleg hvað það varðar. Ég er ekkert óvön því að hafa í mörg horn að líta og líkar það alveg prýðilega, en þegar mikið er um að vera á öllum vígstöðvum þá verður maður svolítið þreyttur. En svona er þetta örugglega hjá öllum konum þannig að ekki ætla ég að kvarta, enda er ég svo heppin að hafa gaman af því sem ég er að fást við.

Eitt af því sem ég hef verið að fást við undanfarna daga, ásamt öllu öðru, er að undirbúa afmæli Evu Pálínu. Hún hélt smá afmælisveislu heima í sveitinni hjá ömmu sinni og afa um helgina og í dag er komið að stelpupartíinu, "the pink show". Ég á semsagt von á hálfri leikskóladeild heim í pizzuveislu síðar í dag. Það verður bara gaman en mikið ósköp hlakka ég til þegar partíið verður afstaðið. Í fyrramálið ætla ég svo að fara í "slökunarferð" til Reykjavíkur. Já, það hljómar öfugsnúið en svona er það nú samt. Aðal erindið er reyndar að hitta Halldór, kennara minn, til skrafs og ráðagerða varðandi BA ritgerðina sem er í vinnslu. Vegna þessa fundar hef ég verið mikið með hugann við ritgerðina, en er samt ekki alveg tilbúin með allt efnið sem ég ætlaði að hafa tilbúið. Klára það í kvöld eftir bleika partíið, þegar afmælisbarnið verður komið í háttinn :)

Vegna ritgerðarvinnunnar hef ég verið eins og grár köttur á héraðsskjalasafninu undanfarna daga og vikur. Það hefur borið þann árangur að fyrir skemmstu varpaði Hrafnkell skjalavörður fram þeirri stórkostlegu hugmynd að ég tæki sæti Dísu í forföllum hennar. Það þarf ekki að orðlengja það frekar að ég hef legið á bæn síðan því að skjalasafnið er einn af mínum uppáhaldsstöðum. En í þessu eru enn mörg "ef" og "kannski" og óvíst um samþykki stjórnarinnar. Það er því eins gott að halda áfram að biðja.


Þar sem útlitið skiptir ekki máli

Þetta er svolítið skondin frétt.... Ákall til ófríðra kvenna Bæjarstjóri afskekkts kolanámuþorps í Ástralíu hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að hafa sagt að ófríðar konur bæjarins njóti mögulega góðs af því hve fáar konur búa í honum. John Molony sagði í viðtali sem birtist í Townsville Bulletin í síðustu viku að í bænum séu um fimm karlar á hverja stúlku. „Mætti ég stinga upp á því að konur sem hafi ekki útlitið með sér komi til Mount Isa.“ Fjöldi kvartana - bæði frá körlum og konum - hefur borist bæjaryfirvöldum í kjölfar ummæla bæjarstjórans. Hann hefur hins vegar neitað að biðjast afsökunar á ummælunum. Hann hafi aðeins verið að segja satt og rétt frá hvernig málum væri háttað í bænum, sem er í Queensland. Stærstu neðanjarðarnámur heims eru í Mount Isa, sem er í um 1800 km frá Brisbane. Árið 2006 bjuggu aðeins 819 konur á aldrinum 20-24 í bænum, en heildaríbúafjöldinn þá var 21.421. Þarna er kominn vonarneisti fyrir konur sem ekki líta út samkvæmt nútíma fegurðarstöðlum. Aldrei að vita nema maður bregði sér til Ástralíu þegar maður verður leiður á einverunni :)


Skrípaleikurinn í borgarstjórn

Enn einn meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur. Ég þakka mínum sæla fyrir að búa ekki í borginni, en fyrir þá sem fylgjast með úr fjarska er þetta eins og léleg gamanþáttaröð. Það er hreint ótrúlegt hvað fólk getur teygt sig langt með græðgi og valdahroka að leiðarljósi. "Við viljum aðeins það sem borgarbúum fyrir bestu" segja sjálfstæðismenn einum rómi. Ef vilji borgarbúa væri tekinn með í reikninginn myndi Dagur B þá ekki setjast í borgarstjórastólinn með félaga sína í Tjarnarkvartettinum í kringum sig? Mig minnir a.m.k. að kannanir hafi ítrekað sýnt hrun sjálfstæðisflokksins þannig að samfylkingin fengi hreinan meirihluta. Þetta er fyrir löngu orðinn skrípaleikur sem meira að segja er of vitlaus til að vera fyndinn. Held svei mér þá að Bachelor þættirnir hafi verið gáfulegri en þessi farsi! 

Hvað um það, ég er bara fegin að vera á öðru landshorni. Við höfum þó haft sama bæjarstjórann allt kjörtímabilið og lengur til :)


Önnur bók

Aðeins meira um nýútkomnar bækur. Fyrir ekki svo ýkja löngu síðan kom út bókin Eftir skyldu míns embættis, prestastefnudómar Þórðar biskups þorlákssonar árin 1675-1697, samantekin af mínum ágæta kennara Má Jónssyni. Þetta er bók sem ég þykist eiga örlítinn hluta í ásamt öðrum nemendum í handritalestri á vormisseri 2007. Í því námskeiði fengum við einmitt það verkefni að skrifa upp kafla úr dómum Þórðar. Mjög skemmtilegt verkefni og lærdómsríkt þannig að ég efast ekki um að bókin er bæði skemmtileg og fróðleg.... fyrir þá sem á annað borð hafa gaman af sagnfræði.


Nýútkomin bók

Fyrir skemmstu fékk ég í hendur nýútkomna bók sem ber heitið Gamlar minningar og ljóð eftir Sigurð Lárusson frá Gilsá í Breiðdal. Bókin lætur ekki mikið yfir sér, en er ljómandi falleg og snyrtileg í alla staði. Eins og heiti hennar gefur til kynna þá inniheldur hún minningabrot höfundar og ljóð eftir hann auk nokkurra skemmtilegra ljósmynda. Það sem heillaði mig mest við þessa ágætu bók er hve persónuleg og hlý hún er. Frásagnirnar eru myndrænar og lítið mál að lifa sig inn í liðna atburði með höfundinum. Ljóðin eru af ýmsum toga, mörg mjög persónuleg. Ástarljóð Sigurðar til eiginkonu sinnar, Herdísar Erlingsdóttur, eru t.d. sérstaklega falleg. Slík ljóð eru til þess fallin að bræða hjarta hvaða eiginkonu eða unnustu sem er. Með það í huga auglýsi ég hér með eftir hagmæltum karlmanni til nánari kynna.

Höfundur

Hulda Sigurdís
Hulda Sigurdís
Höfundur er þjóðfræðingur, sagnfræðingur, bókavörður, húsmóðir, sveitastelpa og margt fleira. Fædd og uppalin á Hornafirði, en hef verið búsett á Egilsstöðum síðan 2003. Á eina átta ára dóttur sem heitir Eva Pálína.

Bloggvinir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband