Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009
27.1.2009 | 11:37
ánægja og áhyggjur
Þau gerast hratt tíðindin í þjóðmálunum þessa dagana - eða öllu heldur þessar klukkustundirnar. Nú sitja þau Ingibjörg og Steingrímur á fundi forseta og allt stefnir í vinstri stjórn. Það er vissulega ángæjuefni að koma sjálfstæðismönnum út í kuldann. Þó er enn meira ánægjuefni ef Jóhanna Sigurðardóttir verður forsætisráðherra. Eitthvað var nú Geir samt að lýsa yfir áhyggjum sínum af þeirri hugmynd, hann er hræddur um að hún geti orðið "útgjaldasamur ráðherra". Þá á hann trúlega við að hún láti útgjöld emættisins renna til allra í þjóðfélaginu en ekki bara vina sinna eins og tíðkast hefur í stjórnartíð sjálfstæðismanna. Með Jóhönnu við stjórnvölinn og Steingrím sem vélstjóra þá horfi ég björtum augum til framtíðar. Skil samt vel að það fari smá hrollur um sjálfstæðismenn sem ekki geta lengur treyst á feita bitlinga í skjóli vina sinna :)
Það sem ég hef mestar áhyggjur af er skammtímaminni sjálfstæðismanna og annarra ráðvilltra kjósenda. Það er ljóst að ný ríkisstjórn þarf að taka skjótar ákvarðanir og trúlega grípa til einhverra óvinsælla aðgerða... sem sjálfstæðismenn hummuðu fram af sér. Þess vegna má búast við því að einhverjir kjósendur verði búnir að gleyma fyrir kosningar, hverjir það voru sem drógu okkur með sér í þessa bragðvondu spillingarsúpu sem er krydduð með græðgi og einkahagsmunapoti. Sú uppskrift er svo sannarlega úr eldhúsi sjálfstæðismanna. Þeir geta eldað hana fyrir sig en við hin skulum njóta heilnæmari fæðu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2009 | 13:16
ef ekki núna - þá hvenær? ef ekki ég - þá hver?
Nú er kominn meira en sólarhringur síðan Björgvin sagði af sér og enn situr Davíð sem fastast. Fyrir skemmstu bárust fréttir af konu í Bandaríkjunum sem greri föst við klósettsetuna... hefur nokkur athugað hvort Davíð sé hugsanlega gróinn við stólinn? Það hlýtur þá að vera hægt að losa á honum afturendann til að koma manninum út. Eitthvað verður allavega að fara að gerast!
Ég er ein af mörgum sem hafa séð minnihlutastjórn í hillingum. Jú, það virðist alveg inn í myndinni að Samfylking og Vinstri grænir taki höndum saman með stuðningi Framsóknar. Það er a.m.k. ljóst að hvaða flokkar sem taka við af þessari vanhæfu og heilsulausu ríkisstjórn þurfa að taka stórar, skjótar og óvinsælar ákvarðanir sem gætu þýtt mikið fylgistap þeirra. Þannig er fræðilegur möguleiki að Sjálfstæðisflokkurinn verði búinn að vinna nógu mikið fylgi til baka fyrir kosningar í maí að hann og trúlega Framsókn geti haldið áfram um stjórnartaumana.
Það veltur allt á minni okkar kjósenda. Verða kjósendur búnir að gleyma afglöpum Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar? Afglöpum þess flokks sem, ásamt meðreiðarsveinum sínum í ríkisstjórn, öðrum fremur teymt okkur á asnaeyrunum niður í hið svartasta spillingarfen sem sést hefur í siðmenntuðu þjóðfélagi? Sjálfstæðismenn eru ekki þekktir fyrir gott minni þannig að þeim væri vel trúandi til að halda tryggð við spillingaröflin eins og einfaldur hundur sem heldur tryggð við húsbónda sinn hvernig meðferð sem hann hlýtur.
Úff, það er of skelfileg tilhugsun til að hún megi verða að veruleika. Það hefur sýnt sig að græðgin virkar ekki. Þess vegna eigum við að nota tækifærið og byggja upp nýtt, réttlátt samfélag. Íslendingar eru ekki nema um þrjúhundruð þúsund, stéttskipt þjóðfélag getur ekki gengið upp í svo litlu samfélagi. Það er öllum ljóst að breytinga er þörf. Eða eins og vitur maður sagði forðum: "Ef ekki núna þá hvenær? og ef ekki ég þá hver?"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2009 | 17:07
Hvað gerir Davíð nú???
Sterkur leikur hjá Björgvin að segja af sér ráðherraembætti. Hann á mikið hrós skilið fyrir að hafa axlað sína ábyrgð og setja mikla pressu á Sjálfstæðisflokkinn og bankastjóra Seðlabankans. Nú bíður þjóðin spennt eftir viðbrögðum þessara siðspilltu aurapúka sem enn sitja sem fastast í fúnum valdastólum sínum. Davíð væri reyndar alveg trúandi til að snúa aftur í pólitíkina og bjóða sig fram í formannsemætti þeirra sjallanna. Nei uss uss, þá hugsun vil ég ekki hugsa til enda.
Þá að allt öðru. Námið sem um daginn virtist algjörlega farið út um þúfur hefur tekið óvænta stefnu. Ég hef sett fókusinn á sagnfræðina og skráði mig með það sama í námskeið um Ást, fjölskyldu og einkalíf á Íslandi 1600 til 1900. Líst alveg ljómandi vel á efnið - enda mikil áhugamanneskja um ástir og fjölskyldulíf í fortíð og nútíð. Ekki spillir heldur fyrir að efni námskeiðsins má vel tengja við efni BA ritgerðarinnar sem ég er enn með í smíðum :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2009 | 13:55
Helvítis fokking fokk!
Hvernig er þetta hægt? Það er vissulega mannlegt að gera mistök, en að gera sömu mistökin aftur... hvað er það annað en heimska? Upptökuprófið í bókmenntafræðinni gekk heldur ekki nógu vel. Í sannleika sagt þá var útkoman úr því hálfu verri en úr hinu fyrra. Það er reyndar umhugsunarefni fyrir viðkomandi kennara hvort eðlilegt sé að helmingur nemenda falli á upptökuprófi.
Mér finnst þó meira athugunarefni hvort konur séu konum verstar innan skólastofunnar. Á mínum námsferli innan háskólans hef ég svosem ekki lagt það í vana minn að falla á prófum, en í þeim tilvikum er það undantekningarlítið í námskeiðum sem konur hafa kennt. Samt eru karlmenn í miklum meirihluta þeirra sem hafa kennt þau námskeið sem farið í gegnum. Því spyr ég, eru kennslukonur strangari þegar kemur að einkunnagjöf? Kenna þær erfiðari námskeið? Er þetta bara tilviljun? Hver er ástæðan?
Nóg af ergelsi í bili. Ef ég hefði verið á suðvesturhorninu hefði ég án efa mætt með potta og pönnur á Austurvöll og fengið útrás fyrir reiði mína þar. En í staðinn beindi ég orku reiðinnar niður í fætur, hljóp eins og vitfirrt manneskja hring eftir hring á íþróttavellinum á meðan ég tautaði í barm mér "helvítis fokking fokk". Það er skemmst frá því að segja að mér leið miklu betur á eftir. Hætt að velta mér upp úr bókmenntafræðiklúðri og farin að hugsa um jákvæðari hluti. T.d. nýja forystu Framsóknarflokksins og nýjan Bandaríkjaforseta. Tek það skýrt fram að ég er ekki framsóknarmaður en held að þetta hvetji aðra flokka til að endurnýja í sínum herbúðum. Efast samt um að sjálfstæðismenn hafi dug og þor til slíkrar endurnýjunar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2009 | 12:13
áminning og áramótaheit
það er ekki ofsögum sagt af spekingnum henni Evu Pálínu. Þar sem við gengum hönd í hönd í krapadrullunni á leið í leikskólann í morgun spurði hún upp úr eins manns hljóði: "Mamma, hvenær verður þú að gera ekki neitt?" Þessi spurning stakk mig aðeins. Ég hef oft hneykslast á þessum önnum köfnu nútímamömmum sem hugsa meira um vinnu og starfsframa heldur en börnin sín. Er ég ekki nákvæmlega ein af þeim? Gef mér allt of lítinn tíma með dótturinni sem bara stækkar og stækkar og verður fullorðin áður en ég veit af! Nei, nú skal verða breyting á. Hér eftir ætla ég að gefa þessari skynsömu dóttur minni allan þann tíma sem hún þarf. Það er annað áramótaheitið mitt.
Hitt áramótaheitið er bæta mig í mannlegum samskiptum, verða "prúð og frjálsleg í fasi" eins og segir einhversstaðar. Ætla að leggja sérstaka áherslu á síðara orðið "frjálsleg". Stíflaður talandi hefur háð mér alla tíð og nú er kominn tími til að breyta því. Einkunnarorð ársins eru semsagt... betri mamma, frjálslegri framkoma :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.1.2009 | 14:16
bókmenntafræðileg aftaka
Þá er hin bókmenntafræðilega aftaka búin og hér er ég enn, nokkurnveginn uppistandandi. Er reyndar í skapi til að höggva mann og annan, en reyni að stilla mig. Prófið sjálft var mjög keimlíkt fyrra prófinu og gengið samkvæmt því. Það sem fer mest í mínar fínustu pirringstaugar er fyrirkomulagið og framkoman við nemendur. Jú, strax í nóvember var send út tilkynning til nemenda um að sjúkra- og upptökupróf yrðu haldin dagana 15. til 25. janúar. Allt í góðu með það. Einkunnir úr desemberprófinu bárust ekki fyrr en á síðustu stundu, eða 5. janúar. Allt í góðu með það líka, minnst tíu dagar til upprifjunar og frekari lesturs. Eftir hádegi föstudaginn 9. janúar var próftaflan loks birt. Þá kom sjokkið. Próf í bókmenntafræði var sett á mánudaginn 12. janúar, kl. 9 til 12. Það er skemmst frá því að segja að ég hef verið svoleiðis hoppandi, sjóðandi bandbrjáluð síðan ég sá próftöfluna. Jújú, auðvitað las ég líka alla helgina. En mér finnst þetta illa gert gagnvart nemendum. Til allrar hamingju starfa ég á svo frábærum vinnustað að fyrirvaralaust frí hálfan dag var ekkert mál.
Nú er nóg komið af pirringi, enda er hann óhollur fyrir heilsuna. Hér er annars þvílík hálka að það er varla hundi út sigandi... nema á broddum. Sjálf hef ég tekið hin glæsilegustu dansspor um götur Egilsstaða. Verð illa svikin ef forsvarsmenn listdansskólans fá ekki ábendingu um þennan hæfileikaríka kandidat. Er ekki frá því að hinn frumsamdi "hálkudans" henti mér betur en skraufaþurr hugtök bókmenntafræðinnar :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2009 | 10:14
Sumir dagar...
Sumir dagar eru einfaldlega verri en aðrir. Slíkur dagur var í gær hjá þeirri sem þetta skrifar. Fyrsta átakið var að koma sér í vinnuna eftir jólafrí. Það verður reyndar ágætt að koma lífinu aftur í fastar skorður. Það sem fór hinsvegar alveg með daginn var útkoma úr bókmenntafræðiprófinu. Jamm, þar féll ég með stæl og er lítt stolt af þar sem prófið var alls ekki erfitt. Hvað var það þá sem klikkaði? En ekki þýðir að leggjast í volæði heldur taka fram bækurnar og lesa meira fyrir upptökuprófið seinna í janúar. Það er mannlegt að gera mistök, en gera sömu mistökin oftar en einu sinni það er heimska.
Til að reyna að hressa eilítið upp á sálartetrið fór fallistinn sem þetta skrifar út að skokka síðdegis. En við hlið hans á íþróttavellinum var annar skokkari, skreflangur atvinnuhlaupari að því er mér sýndist. Það er vægt til orða tekið að ekki var mikið eftir sjálfstrausti fallistans þegar sá skreflangi geystist framúr.
En kosturinn við þessa slæmu daga er sá að þeim mun verri sem dagurinn í dag er, þeim mun meiri líkur eru á því að morgundagurinn verði betri.
Já og gleðilegt ár :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar