Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

með mildi má illt sigra

Þessa dagana er mikið spáð og spekúlerað um stjórnmál, fjármálaklúður, bankabófa, útrásarvíkinga og annað álíka geðslegt. Í gær komst ég á tal við mann sem hafði sniðugar hugmyndir í kollinum, hugmyndir sem ég hef engan heyrt nefna áður. Þ.e. að bjóða "sukkurunum" að leggja fjármuni sína í íslenska banka í stað þess að kyrrsetja eigur þeirra. Í staðinn fengju þeir uppreisn æru, að því gefnu að þeir yrðu ekki fundnir sekir um stórfelld fjársvik eða annað ólöglegt. Þannig mætti koma smá fótum undir bankarústirnar og sukkararnir gætu gengið óhultir um göturnar. Persónulega finnst mér þetta óþarflega mild hugmynd, en hafi umræddir sukkarar ekkert til saka unnið samkvæmt lögum þá ættu þeir ekki að þurfa að óttast neitt. Séu þeir hinsvegar sekir um ólögleg athæfi þá eiga þeir auðvitað að taka út sína refsingu. Þeir ættu kannski að hafa í huga orð biblíunnar þar sem segir m.a. að sannleikurinn gjöri mann frjálsan.

Að allt öðru. Í miklu bjartsýniskasti sótti ég um vinnu á Héraðsskjalasafninu hér í bæ og held ótrauð í vonina þar til niðurstaðan liggur fyrir. Þetta ber ekki að skilja þannig að ég hafi ekki nóg að gera eða sé að hætta á bókasafninu. Fjárhagsleg heilsa mín er bara að niðurlotum komin og þetta er tilraun til að bæta hana. Eftir mikla útreikninga og pælingar komst ég nefnilega að því að fjárhagsendarnir ná engan veginn saman á milli mánaðamóta. Þó að ég sé á góðri leið með að verða sérfróð um ómaga og niðursetninga á síðari hluta 19. aldar þá vil ég síður þurfa að segja mig til sveitar.


ekkert persónulegt...

"Þetta er ekkert persónulegt. Maðurinn er bara búinn að stórskaða íslenska þjóð". Þessi orð Bubba Mortens er að mínu mati það besta og sannasta sem heyrst hefur á íslenskri tungu í langan tíma. Það skilja þau örugglega allir (sem á annað borð skilja íslensku) nema þá kannski sá mikli þjóðarskaðvaldur sem þau eru höfð um. Sá er án efa kominn á spjöld sögunnar fyrir þvermóðsku sína, valdagræðgi, hroka og almennt rugl.

Nóg um Davíð, það er ekki hollt fyrir sálarlífið að hugsa of mikið um þann þvergirðing. Það er einmitt í myrkrinu sem hver ljósglæta sést. Þess vegna er um að gera að taka eftir þeim ljósum sem eru um allt þó að einn þrjóskur kall hangi í slitnum seðlabankastjórastól sínum eins og hundur á roði.

Fyrsta ljósglætan er vissulega sólin sem fer hækkandi með hverjum deginum sem líður og minnir á að "blíðan má hörkunni betur".

Næsta ljósglæta er ríkisstjórnin... tími græðginnar er liðinn og tími nýrra, mannlegra gilda runninn upp.

Þriðja ljósglætan er vinnan mín... já maður má víst þakka fyrir að hafa launaða vinnu og hreinn bónus ef manni líkar hún vel.

Fjórða ljósglætan er námið sem býður upp á ótal möguleika í framtíðinni. Ég er lítil kona með stóra drauma :)

Fimmta og stærsta ljósglætan er auðvitað hún Eva Pálína og hún er eiginlega meira en ljósglæta, hún er heill sólargeisli í lífi mömmu sinnar :)

 


sá óþægi

Þessi farsi í kringum Davíð fer að verða langdregnari en Leiðarljós og Nágrannar til samans! Af hverju getur maðurinn ekki hlýtt vilja þjóðarinnar og hunskast burtu úr Seðlabankanum? Það væru vissulega frekar aumleg endalok að vera borinn út af eldri konu með silfurgrátt hár, en mikið óskaplega myndi hlakka í mér og örugglega fleiri Íslendingum sem krefjast réttlætis.

Það hefur hvarflað að mér að þetta sé úthugsað plott hjá sjálfstæðismönnum. Nú hafa allir fjölmiðlar verið uppfullir af fréttum af Davíð og bréfaskriftum hans og Jóhönnu. Stjórnin vinnur varla nema á hálfum afköstum þegar sífellt þarf að vera að tjónka við óþæga seðalbankastjóra. Kennarar þekkja þetta trúlega manna best því þeir vita að ekki þarf nema einn "vandræðagemling" til að spilla fyrir heilum bekk. Er Davíð kannski með athyglisofvirknimótþróaþrjóskuröskunarbrest??? Svona gífurleg valdagræðgi og hroki hljóta að kalla á einhverja greiningu og það strax! Eða er maðurinn kannski fastur við stólinn sinn? Æi, þá mætti nú bera hann út í fjandans stólnum, stóllinn er hvort sem er orðinn slitinn af áralangri setu Davíðs og annarra álíka afturþungra seðlabankastjóra.


tveir púkar og annar skynsamur... eða hvað?

Á öxlum mínum sitja tveir púkar og ég veit ekki hvor er rödd skynseminnar. Þannig er að eftir hið bókmenntafræðilega klúður í upphafi árs tók ég stefnuna algjörlega á sagnfræðina og bætti m.a.s. við mig námskeiði til að létta mér lífið næsta vetur. Á sama tíma er ég í hálfu starfi og trúi því hver sem vill að það er ekkert auðvelt að láta enda ná saman og útilokað að leyfa sér einhvern munað. En með barnabótum, meðlagi og öðrum þeim ölmusum sem þurfalingum nútímans standa til boða hefur það sloppið til þessa.

Nóg um það. Nú er auglýst hálft starf á bókasafni Héraðsbúa. Annar púkinn sem ég minntist á í upphafi segir mér að sækja um, mig vanti pening, þetta sé samskonar vinna og sú sem ég er í í menntastkólanum. Kollegi hans á hinni öxlinni hrópar hinsvegar "Hvað með barnið? Hvað með námið?" Ég er ekki enn búin að gleyma áramótaheitinu um að verða betri mamma og gefa dótturinni þann tíma sem hún þarf. Ég vil ekki þurfa að ráða barnapíu til að sjá um hana á meðan ég er í vinnunni! En ég gleymi heldur ekki öllum þeim reikningum sem hrúgast í heimabankann minn í hverjum mánuði! Ég get náttúrlega sótt um í  þeirri von að ég fái ekki starfið og málið sé þar með leyst. 

Hvor púkinn er sá skynsami? 


Höfundur

Hulda Sigurdís
Hulda Sigurdís
Höfundur er þjóðfræðingur, sagnfræðingur, bókavörður, húsmóðir, sveitastelpa og margt fleira. Fædd og uppalin á Hornafirði, en hef verið búsett á Egilsstöðum síðan 2003. Á eina átta ára dóttur sem heitir Eva Pálína.

Bloggvinir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband