Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

áhrif fjölmiðla

Þá er það komið á hreint, íslenska þjóðin vill stjórn vinstri- og jafnaðarmanna sem vonandi er ávísun á norrænt velferðarþjóðfélag. Nú bíða landsmenn með öndina í hálsinum eftir niðurstöðum úr viðræðum forystufólksins um ESB aðildarviðræður. Ég neita að trúa öðru en að samkomulag náist og það mjög fljótlega, þjóðin vill þessa stjórn áfram og þarf á henni að halda.

Sú ljóta samsæriskenning hefur reyndar heyrst undanfarið að fjölmiðlar vinni gegn þessum viðræðum. Fáum dögum fyrir kosningar var ESB aðild allt í einu orðið "stóra málið" og mikið gert úr ágreiningi ríkisstjórnarflokkanna um það. Núna eru fjölmiðlar enn í æsifréttaleik með ESB og gera sem mest úr þessum skoðanamun flokkanna...þeim fáu sjálfstæðismönnum sem eftir eru til mikillar skemmtunar! Hverjir eiga svo fjölmiðla aðrir en einmitt þessir fáu, umræddu sjálfstæðismenn?

Ég vil meina að fólk hafi ekki endilega verið að kjósa um ESB á laugardaginn. Það er augljóst mál að meirihluti þjóðarinnar vill þessa tvo flokka áfram við stjórnvölinn og það er stærsta málið.


ESB... það er spurningin

Stundum botna ég ekki alveg í þessari ESB þráhyggju sumra samfylkingarmanna. Þess vegna finnst mér hræðilegt að Björgvin G, þessi prúði drengur skuli útiloka áframhaldandi stjórnarsamstarf við VG nema samkomulag náist fyrst um ESB aðildarviðræður. Aðild að ESB verður ekki tekin af örfáum einstaklingum innan Samfylkingarinnar. Það mál þarf að skoða vel frá öllum hliðum og kynna á hlutlausan hátt fyrir landsmönnum sem að sjálfsögðu eiga að hafa síðasta orðið um aðild. Persónulega er ég alls ekki á móti aðildarviðræðum, vil bara fá að vita meira. Hvað missum við? Hvað fáum við? Hvað gerist? En eins og hún amma mín myndi segja... það þarf að drífa sig! 


vor í lofti... án íhaldsins :)

Eins og sumir dagar eru verri en aðrir dagar eru sumir dagar betri en aðrir. Í morgun hef ég fengið úthlutað sumarbústað á Hreðavatni í viku í júlí. Hlakka mikið til að komast í frí og slaka á í fallegu umhverfi hinumegin á landinu. Núna er ég svo á leiðinni niður í bæ að sækja happdrættisvinning sem mér féll í skaut, flugferð til Reykjavíkur. Hlakka líka mikið til að skreppa í höfuðborgina í einskonar afslöppunarferð.

Til að gera daginn enn betri þá náði ég næstum að klára síðustu lestrarskýrsluna í ástarnámskeiðinu í gærkvöldi. Þá er loksins farið að sjá fyrir endann á þessari gífurlegu törn, enda ekki seinna vænna því að mitt viðkvæma móðurhjarta er kvalið af samviskubiti. Þó að Eva Pálína sýni þessum námstilburðum mömmunnar mikinn skilning þá erum við báðar orðnar þreyttar á þessu. Næsta mál á dagskrá er próf í Sagnaritun eftir tvær vikur og ritgerð fyrir miðjan maí. Ekkert mál :)

Þessu öllu til viðbótar virðist vorið loksins vera komið hingað á Héraðið. Sól skín í heiði, snjórinn á fótum sínum fjör að launa undan hitanum og fuglarnir syngja sín fegurstu ástarljóð í trjánum.


rassskellt íhald og yndislegir páskar

Þrátt fyrir fyrri loforð er eiginlega útilokað að minnast ekki á sjálfstæðisflokkinn (kannski er ekkert meira að marka mín loforð en þeirra íhaldsbelgjanna!). Mér var reyndar kennt það sem barni að það væri ljótt að hlæja að óförum annarra, en í þessu tilviki er ekki annað hægt :) Það er hreint og beint yndislega fyndið að fylgjast með þessum greyjum reyna að klóra yfir spillingarskítinn sinn eins og köttur sem reynir að róta yfir sínar afurðir! Skítalyktin á vonandi eftir að fylgja þeim alla kosningabaráttuna. Þeir hafa alveg unnið fyrir þessum rassskell og skulu sko ekki komast upp með neinn innantóman fagurgala í þetta sinn!

Nóg um íhaldið. Við mæðgur áttum frábæra daga í sveitasælunni á Hornafirði. Mér varð meira úr verki en ég hafði látið mig dreyma um. Skrifaði heila ritgerð á föstudaginn langa við dynjandi söng og píanóleik þriggja stjúpsystra minna sem allar eru miklar söngdívur. Tara Sóley var líka á Skerinu með mömmu sinni og þegar búið var að tengja hana og Evu Pálínu þurfti ekki meira að spá í þær, þær undu sér allan daginn við leiki og listsköpun enda miklir teiknarar báðar tvær. Þrátt fyrir svartsýni mína á þetta ferðalag þá komum við báðar endurnærðar til baka, ég með fullkláraða ritgerð í farteskinu og reiðubúin í næsta verkefni. Það er hreint ótrúlegt hvað sveitastörf og skriftir fara vel saman. Sennilega er það aðeins spurning um jafnvægi milli andlegs og líkamlegs álags. Skemmtiatriði sjálfstæðismanna spilltu heldur ekki fyrir páskahátíðinni enda endalaust hægt að hlæja að þeim ræflunum þessa dagana :)

Næsta verkefni er lestrarskýrsla í ástarnámskeiðinu sem skal skilast eigi síðar en næsta mánudag. Svo tekur við próflestur og áður en ég hespa af síðustu ritgerðinni. Ætla að hvíla ómagana og gera smá úttekt á barneignum og barnafjölda kvenna af tveimur eða þremur kynslóðum á 19. öld. Hlakka mikið til að fara að glíma við það. Spurning hvort við mæðgur förum aftur í "vinnubúðir" heim í sveitina :)


vælandi íhaldsmenn og önnum kafin kerling

Ég var víst búin að lofa því að minnast ekki einu orði á íhaldsbelgi eða nokkuð annað sem mér er á móti skapi. Samt hlakkar í púkanum í mér þegar hver skoðanakönnunin á fætur annrri sýnir svart á hvítu þann rassskell sem sjálfstæðisflokkurinn á skilið. Það er sannkölluð vinstrisveifla í gangi og ekki að ástæðulausu. Flestu heilbrigðu fólki finnst nóg komið af þeirri græðgi sem hefur viðgengist í valdatíð sjálfstæðismanna undanfarin ár... þeirra tími er liðinn! Leyfum greyjunum að væla en hlustum ekki á þeirra innantómu loforð. Þau eru copy-paste frá síðustu kosningabaráttu.

Ég er annars komin í páskafrí á bókasafninu en verð eitthvað viðloðandi manntalsskráninguna á skjalasafninu í næstu viku. Önnur hlutverk mín bjóða ekki upp á neitt páskafrí. Ég þarf að skrifa tvær ritgerðir í fríinu, annarri á að skila 14. og hinni 16. apríl. Eins og ritgerðaskrif geta verið skemmtileg þá geta þau líka verið alveg hræðileg þegar maður hefur of lítinn tíma. En á móti kemur að manni verður oft meira úr verki þegar tíminn er naumur. Þannig að nú skal bretta upp hendur... eða voru það ermar? og fara að skrifa.


Höfundur

Hulda Sigurdís
Hulda Sigurdís
Höfundur er þjóðfræðingur, sagnfræðingur, bókavörður, húsmóðir, sveitastelpa og margt fleira. Fædd og uppalin á Hornafirði, en hef verið búsett á Egilsstöðum síðan 2003. Á eina átta ára dóttur sem heitir Eva Pálína.

Bloggvinir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband