Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Fátækleg minningarorð

Mig langar að skrifa hér fáein orð til að minnast aðeins kennara míns, Halldórs Bjarnasonar sagnfræðings sem lést síðastliðinn laugardag, fimmtugur að aldri.
Frá því ég hóf nám í sagnfræði fyrir fjórum árum, hef ég átt því láni að fagna að sitja nokkur námskeið undir leiðsögn Halldórs. Betri kennari er vandfundinn. Halldór var einstaklega áhugasamur og hlýlegur kennari, alltaf tilbúinn að hjálpa nemendum í vandræðum.
Þar sem ég hef verið í fjarnámi voru samskipi okkar Halldórs nær eingöngu bundin við tölvuskeyti. Þau skeyti voru mörg og skemmtileg og í gegnum þau sá maður glöggt hversu mikill öðlingur hann var.

Fyrir ári síðan skrifaði ég ritgerð um kjör ómaga á Austurlandi í námskeiði sem Halldór kenndi. Upp úr því fengum við bæði sömu hugmynd, þ.e. að þarna væri komið fínt efni í BA ritgerð. Þannig atvikaðist það að ég byrjaði að vinna að BA ritgerð undir dyggri leiðsögn Halldórs. Oft var ég að því
komin að gefast upp, en alltaf tókst Halldóri að hrista þann aumingjaskap af mér og hvetja mig áfram. Mín fyrsta hugsun eftir að ég frétti um andlát hans var að hætta við ritgerðina. En sú hugsun varði ekki nema örfá sekúndubrot, ritgerðina skal ég klára og tileinka hana minningu hans.


Nýárs blessuð sól

Þá er árið 2009 liðið í aldanna skaut og kemur aldrei til baka. Gott ár fyrir suma, verra fyrir aðra. Fyrir þá sem þetta skrifar var nýliðið ár heldur tíðindalítið, einkenndist af mikilli vinnu og hversdagslegu brauðstriti. En ég er þakklát fyrir árið 2009, þakklát fyrir góða heilsu, þakklát fyrir að mega enn um sinn njóta samvista við mitt nánasta fólk.

En hvað boðar nýárs blessuð sól? (...þ.e. annað en áframhaldandi Icesave umræður.) Ég hef lengi átt mér stóra drauma um bókaútgáfu og útskrift úr Háskólanum. Hugsanlega tekst mér að láta þessa tvo drauma rætast á árinu 2010. Núna stendur valið á milli áframhaldandi vinnu á Héraðsskjalasafninu eða þess að taka námið með trompi og ljúka því í vor. Fjárhagslega er fyrrnefndi kosturinn heppilegri, en þegar allt er lagt saman þá standa þessir kostir nokkuð jafnt. Þetta skýrist allt á næstu dögum, en hvað sem ég geri þá ætla ég að reyna að gera það besta úr því :)


Höfundur

Hulda Sigurdís
Hulda Sigurdís
Höfundur er þjóðfræðingur, sagnfræðingur, bókavörður, húsmóðir, sveitastelpa og margt fleira. Fædd og uppalin á Hornafirði, en hef verið búsett á Egilsstöðum síðan 2003. Á eina átta ára dóttur sem heitir Eva Pálína.

Bloggvinir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband