Færsluflokkur: Bloggar
19.5.2009 | 10:22
afrek og fleiri afrek
Þá er Júróvísion fjörinu lokið þetta árið og lögin fallin í gleymskunnar dá.... nema að sjálfsögðu norska fairy tale og íslenski sannleiksóðurinn :) Úrslitin sýndu þó svart á hvítu að það er eitthvað vitrænna en snípsíð pils og langir leggir sem telja þegar á hólminn er komið. Það gæti jafnvel verið að fallegar lagasmíðar og einlægur flutningur hafi eitthvað að segja eftir allt saman :) En helvískir útrásarvíkingarnir þurfa semsagt ekki að splæsa næstu keppni á íslensku þjóðina, það verður höfuðverkur Norðmanna að finna út úr því. Efast ekki um að þeir klára það með sóma, enda skilst mér að þeir séu "dannaðri" hluti Íslendinga. Voru það ekki óþægu Norðmennirnir sem flúðu kerfið og settust að á stórri eyju lengst úti í ballarhafi þar sem nú heitir Ísland? Það gæti skýrt sitthvað um hömluleysi okkar eyjaskeggjanna.
Með norska fiðlutóna á heilanum tókst mér að skrifa heila ritgerð um helgina. Með óhugnanlega löngum setum við tölvuna langt fram eftir nóttum, meiri kaffidrykkju en hraustustu sjómenn myndu þola og algjörri vanrækslu á heimilishaldinu þá skrifaði ég hátt í 4000 orð á tveimur dögum. Það hljóta að vera þokkaleg afköst, ekki síst þar sem heilabú mitt starfar alla jafna á hraða aldurhniginnar skjaldböku. Ritgerðin fór í tölvupósthólf kennarans rétt fyrir kl. 1 í gærkvöldi og þar með er vormisserinu lokið. Léttirinn er mikill, eiginlega svo mikill að ef ég drykki þá dytti ég í það! En í staðinn ætla ég að nota næstu daga til að sinna barni og búi og öðru sem ég hef gjörsamlega vanrækt undanfarið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2009 | 09:50
Júróvísion í boði útrásarvíkinga
Aðeins meira um Júróvísíon. Ég viðurkenni þó ekki að ég sé forfallinn aðdáandi en fylgist að sjálfsögðu með henni, stundum til að hneysklast en stundum full hrifningar. Þannig voru geðsveiflur mínar í gærkvöldi þar sem við horfðum með athygli á ungverskan stuttpilnsaþyt, heillandi Hollendinga og allt þar á milli. Norski snillingurinn fannst mér þó bera höfuð og herðar yfir aðra keppendur og ekki laust við að þau norsku gen sem ég hlaut í föðurarf hafi aðeins látið á sé kræla. Ég skal hundur heita ef þessi drengur á ekki eftir að setja mark sitt á tónlistarsöguna... vona það a.m.k.
En fari nú svo að Noregur vinni ekki, heldur Ísland (það getur allt gerst) þá fer þjóðin trúlega endanlega á hausinn við að halda næstu keppni að ári. Væri þá ekki sjálfsagt mál að snúa upp á handleggi "útrásarvíkinganna" og láta þá borga fyrir keppnina úr eigin vasa? Þjóðin á það svo sannarlega inni hjá þeim. En vinningslíkurnar eru sennilega frekar Noregs megin heldur en Íslands í þetta skipti þannig að helvískir víkingarnir geta trúlega haldið áfram í sínum peningaleik enn um sinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2009 | 09:55
snípsíð pils og kettir í vaxmeðferð
Að sumra mati eru það fyrstu ellimerkin þegar maður er farinn að rífast hástöfum við sjónvarpið. Þá er ég líklega ekkert unglamb lengur þar sem ég tek reglulega rispur yfir hneykslanlegu sjónvarpsefni, hvort sem það eru fúlir sjálfstæðismenn eða klæðalitlar evrópskar söngkonur.
Hvað er þetta eiginlega með Eurovision? Af hverju geta kvenkyns keppendur ekki verið sómasamlega klæddir?? Er þessi keppni svo dýr að ekki er hægt að klæða keppendur betur en í snípsíð pils og einhverja smá dulu yfir geirvörturnar? Er þetta orðin keppni í fallegustu leggjunum? stysta pilsinu? "Það var sagt mér" að þetta hefði einu sinni verið söngvakeppni!!! Núna er svo komið fyrir þessari keppni að hljóðum sumra má líkja við "breimandi ketti í vaxmeðferð" svo notuð séu orð íslenska kynnisins.
En hvað um það.... Jóhanna stóð sig með prýði og þó að kjólnum hennar hafi verið líkt við ljósbláan bolluvönd þá fannst mér hann fallegur og fara henni ljómandi vel. Það besta er samt að stelpan er alveg hörkugóð söngkona og er það ekki einmitt það sem þessi keppni snýst um???
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.5.2009 | 09:48
sagnfræðilegir þankar - eftirköst prófsins
Þvílíkur léttir... prófið búið og aðeins ein ritgerð eftir :) Prófinu þykist ég hafa lokið nokkuð skammlítið þó auðvitað megi alltaf gera betur. Síðasta spurningin situr ennþá föst í mínum ruglingslega kolli, en hún hljóðaði þannig: "Er hægt að skrifa hlutlæga sagnfræði?" Ég vil meina að svo sé ekki. Hvernig sem sagnfræðingur reynir að vera algjörlega hlutlægur þá hlýtur huglægt mat hans að skína í gegn um texta sem hann skrifar frá eigin brjósti auk þess sem hann hlýtur að taka ósjálfráttt frekar eftir þeim heimildum sem styðja hans tilgátu eða kenningu og þ.a.l. nota þær frekar en aðrar við rannsóknir sínar. Þetta huglæga mat sagnfræðingsins þarf alls ekki að þýða lakari vinnubrögð svo lengi sem rannsóknir hans standast eðlilegar kröfur um sannleiksgildi. Sagnfræðingur og skáldsagnahöfundur þurfa báðir að vera gæddir miklum frásagnarhæfileikum, sá fyrrnefndi til að lýsa liðnum atburðum eins satt og rétt og hann getur vitað, en sá síðarnefndi til að lýsa tilbúnum atburðum.
Næsta mál er ritgerð um hjónabönd og barneignir formæðra og -feðra. Helsta heimildin verður Íslendingabók hin nýjasta. Virkilega spennandi ritgerðarefni, enda voru konur í gamla íslenska bændasamfélaginu miklar hetjur í mínum huga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2009 | 09:56
geðheilsan á tímum vorprófa
Ekki veit ég hver það var sem "fattaði upp á prófum" en sá maður á litlar þakkir skyldar! Mín reynsla af prófum er sú að þau gefa sjaldnast rétta mynd af kunnáttu nemandans, fyrir utan þau skelfilegu áhrif sem yfirvofandi próf geta haft á geðheilsu saklauss nemanda. Á mínum langa og hægfara háskólaferli hef ég verið í tveimur námskeiðum sem metin voru af skilum á lestrarskýrslum og stærri ritgerð. Eflaust er það meiri vinna fyrir kennarann, en að mínu mati er þetta mun sanngjarnari aðferð til að meta kunnáttu nemenda heldur en andsk... prófin endalaust!
Undanfarna daga hef ég setið sveitt við próflestur eins og svo margir aðrir nemendur. Trúi því hver sem vill en það er ekki auðvelt að einbeita sér að póstmódernískri frásagnarhyggju (eða hvað þetta heitir allt saman) með tvö til fjögur fjörug börn á aldrinum 3 til 5 hlaupandi í kringum sig, eða seint á kvöldin þegar heilabúið er orðið úrvinda af þreytu og heimilið á hvolfi eftir loftárásir ungviðisins. Þá er ekki mikið sem situr eftir af lesefninu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2009 | 10:47
áhrif fjölmiðla
Þá er það komið á hreint, íslenska þjóðin vill stjórn vinstri- og jafnaðarmanna sem vonandi er ávísun á norrænt velferðarþjóðfélag. Nú bíða landsmenn með öndina í hálsinum eftir niðurstöðum úr viðræðum forystufólksins um ESB aðildarviðræður. Ég neita að trúa öðru en að samkomulag náist og það mjög fljótlega, þjóðin vill þessa stjórn áfram og þarf á henni að halda.
Sú ljóta samsæriskenning hefur reyndar heyrst undanfarið að fjölmiðlar vinni gegn þessum viðræðum. Fáum dögum fyrir kosningar var ESB aðild allt í einu orðið "stóra málið" og mikið gert úr ágreiningi ríkisstjórnarflokkanna um það. Núna eru fjölmiðlar enn í æsifréttaleik með ESB og gera sem mest úr þessum skoðanamun flokkanna...þeim fáu sjálfstæðismönnum sem eftir eru til mikillar skemmtunar! Hverjir eiga svo fjölmiðla aðrir en einmitt þessir fáu, umræddu sjálfstæðismenn?
Ég vil meina að fólk hafi ekki endilega verið að kjósa um ESB á laugardaginn. Það er augljóst mál að meirihluti þjóðarinnar vill þessa tvo flokka áfram við stjórnvölinn og það er stærsta málið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.4.2009 | 12:59
ESB... það er spurningin
Stundum botna ég ekki alveg í þessari ESB þráhyggju sumra samfylkingarmanna. Þess vegna finnst mér hræðilegt að Björgvin G, þessi prúði drengur skuli útiloka áframhaldandi stjórnarsamstarf við VG nema samkomulag náist fyrst um ESB aðildarviðræður. Aðild að ESB verður ekki tekin af örfáum einstaklingum innan Samfylkingarinnar. Það mál þarf að skoða vel frá öllum hliðum og kynna á hlutlausan hátt fyrir landsmönnum sem að sjálfsögðu eiga að hafa síðasta orðið um aðild. Persónulega er ég alls ekki á móti aðildarviðræðum, vil bara fá að vita meira. Hvað missum við? Hvað fáum við? Hvað gerist? En eins og hún amma mín myndi segja... það þarf að drífa sig!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2009 | 12:47
vor í lofti... án íhaldsins :)
Eins og sumir dagar eru verri en aðrir dagar eru sumir dagar betri en aðrir. Í morgun hef ég fengið úthlutað sumarbústað á Hreðavatni í viku í júlí. Hlakka mikið til að komast í frí og slaka á í fallegu umhverfi hinumegin á landinu. Núna er ég svo á leiðinni niður í bæ að sækja happdrættisvinning sem mér féll í skaut, flugferð til Reykjavíkur. Hlakka líka mikið til að skreppa í höfuðborgina í einskonar afslöppunarferð.
Til að gera daginn enn betri þá náði ég næstum að klára síðustu lestrarskýrsluna í ástarnámskeiðinu í gærkvöldi. Þá er loksins farið að sjá fyrir endann á þessari gífurlegu törn, enda ekki seinna vænna því að mitt viðkvæma móðurhjarta er kvalið af samviskubiti. Þó að Eva Pálína sýni þessum námstilburðum mömmunnar mikinn skilning þá erum við báðar orðnar þreyttar á þessu. Næsta mál á dagskrá er próf í Sagnaritun eftir tvær vikur og ritgerð fyrir miðjan maí. Ekkert mál :)
Þessu öllu til viðbótar virðist vorið loksins vera komið hingað á Héraðið. Sól skín í heiði, snjórinn á fótum sínum fjör að launa undan hitanum og fuglarnir syngja sín fegurstu ástarljóð í trjánum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2009 | 11:14
rassskellt íhald og yndislegir páskar
Þrátt fyrir fyrri loforð er eiginlega útilokað að minnast ekki á sjálfstæðisflokkinn (kannski er ekkert meira að marka mín loforð en þeirra íhaldsbelgjanna!). Mér var reyndar kennt það sem barni að það væri ljótt að hlæja að óförum annarra, en í þessu tilviki er ekki annað hægt :) Það er hreint og beint yndislega fyndið að fylgjast með þessum greyjum reyna að klóra yfir spillingarskítinn sinn eins og köttur sem reynir að róta yfir sínar afurðir! Skítalyktin á vonandi eftir að fylgja þeim alla kosningabaráttuna. Þeir hafa alveg unnið fyrir þessum rassskell og skulu sko ekki komast upp með neinn innantóman fagurgala í þetta sinn!
Nóg um íhaldið. Við mæðgur áttum frábæra daga í sveitasælunni á Hornafirði. Mér varð meira úr verki en ég hafði látið mig dreyma um. Skrifaði heila ritgerð á föstudaginn langa við dynjandi söng og píanóleik þriggja stjúpsystra minna sem allar eru miklar söngdívur. Tara Sóley var líka á Skerinu með mömmu sinni og þegar búið var að tengja hana og Evu Pálínu þurfti ekki meira að spá í þær, þær undu sér allan daginn við leiki og listsköpun enda miklir teiknarar báðar tvær. Þrátt fyrir svartsýni mína á þetta ferðalag þá komum við báðar endurnærðar til baka, ég með fullkláraða ritgerð í farteskinu og reiðubúin í næsta verkefni. Það er hreint ótrúlegt hvað sveitastörf og skriftir fara vel saman. Sennilega er það aðeins spurning um jafnvægi milli andlegs og líkamlegs álags. Skemmtiatriði sjálfstæðismanna spilltu heldur ekki fyrir páskahátíðinni enda endalaust hægt að hlæja að þeim ræflunum þessa dagana :)
Næsta verkefni er lestrarskýrsla í ástarnámskeiðinu sem skal skilast eigi síðar en næsta mánudag. Svo tekur við próflestur og áður en ég hespa af síðustu ritgerðinni. Ætla að hvíla ómagana og gera smá úttekt á barneignum og barnafjölda kvenna af tveimur eða þremur kynslóðum á 19. öld. Hlakka mikið til að fara að glíma við það. Spurning hvort við mæðgur förum aftur í "vinnubúðir" heim í sveitina :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2009 | 12:56
vælandi íhaldsmenn og önnum kafin kerling
Ég var víst búin að lofa því að minnast ekki einu orði á íhaldsbelgi eða nokkuð annað sem mér er á móti skapi. Samt hlakkar í púkanum í mér þegar hver skoðanakönnunin á fætur annrri sýnir svart á hvítu þann rassskell sem sjálfstæðisflokkurinn á skilið. Það er sannkölluð vinstrisveifla í gangi og ekki að ástæðulausu. Flestu heilbrigðu fólki finnst nóg komið af þeirri græðgi sem hefur viðgengist í valdatíð sjálfstæðismanna undanfarin ár... þeirra tími er liðinn! Leyfum greyjunum að væla en hlustum ekki á þeirra innantómu loforð. Þau eru copy-paste frá síðustu kosningabaráttu.
Ég er annars komin í páskafrí á bókasafninu en verð eitthvað viðloðandi manntalsskráninguna á skjalasafninu í næstu viku. Önnur hlutverk mín bjóða ekki upp á neitt páskafrí. Ég þarf að skrifa tvær ritgerðir í fríinu, annarri á að skila 14. og hinni 16. apríl. Eins og ritgerðaskrif geta verið skemmtileg þá geta þau líka verið alveg hræðileg þegar maður hefur of lítinn tíma. En á móti kemur að manni verður oft meira úr verki þegar tíminn er naumur. Þannig að nú skal bretta upp hendur... eða voru það ermar? og fara að skrifa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar