Færsluflokkur: Bloggar

afsakanir íhaldsins...einmitt!

Enn einu sinni snýst allt um Davíð Oddsson... m.a.s. bloggið mitt snýst um hann! Hvernig væri að setja fjölmiðlabann á manninn? Þegar hann opnar munninn fer heill fréttatími í að ræða það sem hann sagði og næsti fréttatími fer í að ræða viðbrögð við orðum hans. Er þetta eðlilegt? Er í lagi að einn maður hafi þessi áhrif? Margur verður af aurum api og völdum vitlaus. Þarf nokkuð annað en að líta á feril Davíðs til að sjá sannleiksgildi þessara orða?

Burtséð frá þessu átrúnaðargoði sjálfstæðismanna þá er vægast sagt pínlegt að hlusta á málflutning þeirra þessa dagana þar sem þeir keppast við að útdeila innihaldslausum afsökunarbeiðnum sem enga merkingu hafa. En það var ekki stefna þeirra sem brást, heldur einstaklingarnir. Hvernig væri þá að skipta um einstaklinga í brúnni? Ég sé ósköp lítinn mun á Geir Haarde og Bjarna Ben nema kannski ein tuttugu ár og tuttugu kíló! Þetta lið hefur fengið sitt tækifæri og klúðrað því. Falleg loforð virka ekki lengur.

Og svo ekki orð meira um íhaldið!


íhaldsbelgir og öskubuskur

"Ekki gera ekki neitt" er titill á greinarkorni eftir íhaldsdrenginn Sigurð Kára í Mogganum í dag. Stráksi bara kominn í kosningaham. Hvað hafa sjálfstæðismenn gert annað en einmitt ekki neitt? Þá er bara verið að meina undanfarna mánuði. Fyrir þann tíma voru þeir í óða önn að græða peninga fyrir sig og vini sína með heiðarlegum eða óheiðarlegum hætti og allir vita hvernig sú yfirgengilega græðgisstefna leiddi þjóðina. Förum ekki nánar út í þá viðbjóðslegu sálma.

Í fréttatíma sjónvarpsins í gærkvöldi var voða jákvæð frétt um að sjálfstæðismenn og hirðfífl þeirra í framsókn vildu fella niður hluta af skuldum einstaklinga. Frábært.... á ekki bara að kjósa þá??? Nei ekki aldeilis! Því í fréttinni kom líka fram að þessi niðurfelling ætti aðeins við um þá örfáu sem hafa steypt sér í botnlaust skuldafen, með milljarð eða meira á bakinu. Við, hinir vesalingarnir sitjum uppi með okkar skuldir plús þrjúhundruð þúsund í viðbót vegna þessara niðurfellinga! Er þetta réttlæti? En hverjir eru svo galnir að stunda svona fjárglæfrastarfsemi aðrir en einmitt sjálfstæðismenn? Ríku uppabörnin í Garðabæ sem þurftu svo stór og falleg hús til að líta vel út... æi á maður að fara að vorkenna þeim? Held ekki, þetta er einmitt fólkið sem naut "góðærisins", þetta er fólkið sem var í partíinu! Af hverju á það ekki að borga fyrir herlegheitin? Það er ekkert sanngjarnt að við, sem erum fengin til að þrífa eftir partíið, skulum þurfa að borga fyrir sukk gráðugra íhaldsbelgja! Annars hef ég um nóg annað að hugsa en vera að ergja mig yfir pólitíkinni - finnst þetta bara svo yfirgengilegt óréttlæti að það hreinlega rýkur úr eyrunum á mér! Nú er gott að rifja upp ævintýri eins og Öskubusku þar sem réttlætið sigraði að lokum. Vonandi mun það líka gerast í raunveruleikanum. Og það myndi ekki saka ef prinsinn birtist líka :)

Nóg um það, ég náði að skila þriðju lestrarskýrslu í ástarnámskeiðinu rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi. Þá er aðeins ein lestrarskýrsla og tvær stærri ritgerðir eftir. Næsta mál á dagskrá er líklega ritgerð um sjálfsævisögur sem sagnfræðilegar heimildir. Virkilega spennandi efni. Er enn að spá í efni fyrir hina ritgerðina. Það er svo margt sem mig langar til að taka fyrir að mér fallast gjörsamlega hendur. Ómagar eru reyndar mitt helsta áhugamál, þannig að eitthvað þeim tengt kæmi sterklega til greina.


Húrra fyrir Jóhönnu!

Í fyrirspurnartíma á alþingi var Jóhanna spurð út í afsökunarbeiðni hins opinbera til þeirra sem fóru illa út úr vistinni í Breiðuvík og á fleiri slíkum heimilum. Þarna í ræðustól alþingis baðst hún afsökunar fyrir hönd ríkisins og sagði jafnframt að samningaviðræður um sanngjarnar bætur væru í gangi. Forveri Jóhönnu, íhaldsbelgurinn Geir Haarde fékk þessa sömu fyrirspurn á sínum tíma. Hann hummaði málið fram af sér og sagði enga þ-rf á afsökunarbeiðni. Þetta er lýsandi dæmi fyrir ólík vinnubrögð þessara tveggja forsætisráðherra. Jóhanna er greinilega dugnaðarforkur sem lætur verkin tala án þess að vera að flækja málin. Þess vegna segi ég það enn og aftur... Húrra fyrir Jóhönnu!


Kjarkur, dugur og siðferðiskennd... eða hvað?

Hvað er málið með þessa vesalings sjálfstæðismenn? Geta þeir ómögulega sætt sig við að vera í stjórnarandstöðu og reynt að vinna af heilindum með meirihlutanum? Nei, sennilega ekki, niðurskurðarhnífurinn gæti bitnað á þeim og vinum þeirra. Sú bragðvonda spillingarsúpa sem núna er verið að neyða ofan í landsmenn er úr þeirra eldhúsi, elduð eftir uppskrift Davíðs Oddssonar. Hvað skyldi sá kokkur annars vera að plotta núna? Vona bara, þjóðarinnar vegna að hann sé ekki að gera neitt af sér. Sennilega er hann að fagna endalokum Baugs. Það er auðvelt að sjá eftir á hvað bæði póltískur ferill Davíðs og ógnvænleg útþensla Baugsveldisins eru sorgleg dæmi um ótrúlega græðgi og valdafíkn örfárra einstaklinga. 

Núna hellast yfir mann bæklingar og auglýsingar frá "meisturum" eldamennskunnar sem vilja fá að sitja áfram á þingi. Eins og átján ár í ríkisstjórn séu ekki nógu langur tími fyrir þá??! Við eigum að gleyma öllu og kjósa sjálfstæðisflokkinn af því þar er fólk með kjark, dug, áræði, skynsemi og siðferðiskennd! Heyr á endemi!!! Þetta eru þvílík öfugmæli að jafnvel vísan um fiskinn sem hefur fögur hljóð og finnst oft á heiðum kemst ekki í hálfkvisti við þetta bull!

 


samviskunag

Með hugann fullan af fjármálaáhyggjum sótti ég um vinnu við tímabundið skráningarverkefni á Héraðsskjalasafninu og viti menn...ég er komin í vinnu þar auk bókasafnsins. Líst ljómandi vel á, þykist reyndar vera ágætlega kunnug Safnahúsinu þar sem ég hef unnið á öllum hæðum þess á undanförnum árum. Fjárhagsleg heilsa mín ætti að batna til muna við þetta en það er spurning um annarskonar heilsu því samviskan plagar mig látlaust. Nú er ég semsagt komin í fulla vinnu, er í næstum fullu námi auk bús og barns. Þegar maður er að vesenast í mörgu í einu er alltaf sú hætta fyrir hendi að maður sinni engu nógu vel, heldur hlaupi yfir allt á hundavaði. Ég vil að sjálfsögðu standa mig í vinnunni... vinnunum, ég vil líka standa mig vel í náminu og síðast en ekki síst vil ég gefa Evu Pálínu allan þann tíma og þá umhyggju sem hún þarf. En Eva er skynsöm stelpa sem tekur þessari "vinnugleði" mömmunnar með stóískri ró.

Hvað námið varðar þá er ég aðeins að ná áttum eftir stefnubreytinguna um áramótin. Auðvitað hefði verið gaman að útskrifast í sumar, en það þýðir ekki að fást um það. Núna er ég að byrja á ritgerð um sjálfsævisögur sem sagnfræðilegar heimildir og notkun þeirra. Virðist ekki spennandi við fyrstu sýn, en ég er orðin gjörsamlega heilluð. Hvað veitir okkur betri innsýn í huga venjulegs fólks heldur en einmitt sjálfsævisögur, endurminningar, dagbækur og sendibréf? Reyndar þarf að hafa í huga að efni sem væntanlega er skrifað frá hjartanu endurspeglar aðeins sannleika og skoðanir þess einstaklings sem það skrifar sem þarf ekki endilega að vera ríkjandi skoðun samfélagsins.

 

 


með mildi má illt sigra

Þessa dagana er mikið spáð og spekúlerað um stjórnmál, fjármálaklúður, bankabófa, útrásarvíkinga og annað álíka geðslegt. Í gær komst ég á tal við mann sem hafði sniðugar hugmyndir í kollinum, hugmyndir sem ég hef engan heyrt nefna áður. Þ.e. að bjóða "sukkurunum" að leggja fjármuni sína í íslenska banka í stað þess að kyrrsetja eigur þeirra. Í staðinn fengju þeir uppreisn æru, að því gefnu að þeir yrðu ekki fundnir sekir um stórfelld fjársvik eða annað ólöglegt. Þannig mætti koma smá fótum undir bankarústirnar og sukkararnir gætu gengið óhultir um göturnar. Persónulega finnst mér þetta óþarflega mild hugmynd, en hafi umræddir sukkarar ekkert til saka unnið samkvæmt lögum þá ættu þeir ekki að þurfa að óttast neitt. Séu þeir hinsvegar sekir um ólögleg athæfi þá eiga þeir auðvitað að taka út sína refsingu. Þeir ættu kannski að hafa í huga orð biblíunnar þar sem segir m.a. að sannleikurinn gjöri mann frjálsan.

Að allt öðru. Í miklu bjartsýniskasti sótti ég um vinnu á Héraðsskjalasafninu hér í bæ og held ótrauð í vonina þar til niðurstaðan liggur fyrir. Þetta ber ekki að skilja þannig að ég hafi ekki nóg að gera eða sé að hætta á bókasafninu. Fjárhagsleg heilsa mín er bara að niðurlotum komin og þetta er tilraun til að bæta hana. Eftir mikla útreikninga og pælingar komst ég nefnilega að því að fjárhagsendarnir ná engan veginn saman á milli mánaðamóta. Þó að ég sé á góðri leið með að verða sérfróð um ómaga og niðursetninga á síðari hluta 19. aldar þá vil ég síður þurfa að segja mig til sveitar.


ekkert persónulegt...

"Þetta er ekkert persónulegt. Maðurinn er bara búinn að stórskaða íslenska þjóð". Þessi orð Bubba Mortens er að mínu mati það besta og sannasta sem heyrst hefur á íslenskri tungu í langan tíma. Það skilja þau örugglega allir (sem á annað borð skilja íslensku) nema þá kannski sá mikli þjóðarskaðvaldur sem þau eru höfð um. Sá er án efa kominn á spjöld sögunnar fyrir þvermóðsku sína, valdagræðgi, hroka og almennt rugl.

Nóg um Davíð, það er ekki hollt fyrir sálarlífið að hugsa of mikið um þann þvergirðing. Það er einmitt í myrkrinu sem hver ljósglæta sést. Þess vegna er um að gera að taka eftir þeim ljósum sem eru um allt þó að einn þrjóskur kall hangi í slitnum seðlabankastjórastól sínum eins og hundur á roði.

Fyrsta ljósglætan er vissulega sólin sem fer hækkandi með hverjum deginum sem líður og minnir á að "blíðan má hörkunni betur".

Næsta ljósglæta er ríkisstjórnin... tími græðginnar er liðinn og tími nýrra, mannlegra gilda runninn upp.

Þriðja ljósglætan er vinnan mín... já maður má víst þakka fyrir að hafa launaða vinnu og hreinn bónus ef manni líkar hún vel.

Fjórða ljósglætan er námið sem býður upp á ótal möguleika í framtíðinni. Ég er lítil kona með stóra drauma :)

Fimmta og stærsta ljósglætan er auðvitað hún Eva Pálína og hún er eiginlega meira en ljósglæta, hún er heill sólargeisli í lífi mömmu sinnar :)

 


sá óþægi

Þessi farsi í kringum Davíð fer að verða langdregnari en Leiðarljós og Nágrannar til samans! Af hverju getur maðurinn ekki hlýtt vilja þjóðarinnar og hunskast burtu úr Seðlabankanum? Það væru vissulega frekar aumleg endalok að vera borinn út af eldri konu með silfurgrátt hár, en mikið óskaplega myndi hlakka í mér og örugglega fleiri Íslendingum sem krefjast réttlætis.

Það hefur hvarflað að mér að þetta sé úthugsað plott hjá sjálfstæðismönnum. Nú hafa allir fjölmiðlar verið uppfullir af fréttum af Davíð og bréfaskriftum hans og Jóhönnu. Stjórnin vinnur varla nema á hálfum afköstum þegar sífellt þarf að vera að tjónka við óþæga seðalbankastjóra. Kennarar þekkja þetta trúlega manna best því þeir vita að ekki þarf nema einn "vandræðagemling" til að spilla fyrir heilum bekk. Er Davíð kannski með athyglisofvirknimótþróaþrjóskuröskunarbrest??? Svona gífurleg valdagræðgi og hroki hljóta að kalla á einhverja greiningu og það strax! Eða er maðurinn kannski fastur við stólinn sinn? Æi, þá mætti nú bera hann út í fjandans stólnum, stóllinn er hvort sem er orðinn slitinn af áralangri setu Davíðs og annarra álíka afturþungra seðlabankastjóra.


tveir púkar og annar skynsamur... eða hvað?

Á öxlum mínum sitja tveir púkar og ég veit ekki hvor er rödd skynseminnar. Þannig er að eftir hið bókmenntafræðilega klúður í upphafi árs tók ég stefnuna algjörlega á sagnfræðina og bætti m.a.s. við mig námskeiði til að létta mér lífið næsta vetur. Á sama tíma er ég í hálfu starfi og trúi því hver sem vill að það er ekkert auðvelt að láta enda ná saman og útilokað að leyfa sér einhvern munað. En með barnabótum, meðlagi og öðrum þeim ölmusum sem þurfalingum nútímans standa til boða hefur það sloppið til þessa.

Nóg um það. Nú er auglýst hálft starf á bókasafni Héraðsbúa. Annar púkinn sem ég minntist á í upphafi segir mér að sækja um, mig vanti pening, þetta sé samskonar vinna og sú sem ég er í í menntastkólanum. Kollegi hans á hinni öxlinni hrópar hinsvegar "Hvað með barnið? Hvað með námið?" Ég er ekki enn búin að gleyma áramótaheitinu um að verða betri mamma og gefa dótturinni þann tíma sem hún þarf. Ég vil ekki þurfa að ráða barnapíu til að sjá um hana á meðan ég er í vinnunni! En ég gleymi heldur ekki öllum þeim reikningum sem hrúgast í heimabankann minn í hverjum mánuði! Ég get náttúrlega sótt um í  þeirri von að ég fái ekki starfið og málið sé þar með leyst. 

Hvor púkinn er sá skynsami? 


ánægja og áhyggjur

Þau gerast hratt tíðindin í þjóðmálunum þessa dagana - eða öllu heldur þessar klukkustundirnar. Nú sitja þau Ingibjörg og Steingrímur á fundi forseta og allt stefnir í vinstri stjórn. Það er vissulega ángæjuefni að koma sjálfstæðismönnum út í kuldann. Þó er enn meira ánægjuefni ef Jóhanna Sigurðardóttir verður forsætisráðherra. Eitthvað var nú Geir samt að lýsa yfir áhyggjum sínum af þeirri hugmynd, hann er hræddur um að hún geti orðið "útgjaldasamur ráðherra". Þá á hann trúlega við að hún láti útgjöld emættisins renna til allra í þjóðfélaginu en ekki bara vina sinna eins og tíðkast hefur í stjórnartíð sjálfstæðismanna. Með Jóhönnu við stjórnvölinn og Steingrím sem vélstjóra þá horfi ég björtum augum til framtíðar. Skil samt vel að það fari smá hrollur um sjálfstæðismenn sem ekki geta lengur treyst á feita bitlinga í skjóli vina sinna :)

Það sem ég hef mestar áhyggjur af er skammtímaminni sjálfstæðismanna og annarra ráðvilltra kjósenda. Það er ljóst að ný ríkisstjórn þarf að taka skjótar ákvarðanir og trúlega grípa til einhverra óvinsælla aðgerða... sem sjálfstæðismenn hummuðu fram af sér. Þess vegna má búast við því að einhverjir kjósendur verði búnir að gleyma fyrir kosningar, hverjir það voru sem drógu okkur með sér í þessa bragðvondu spillingarsúpu sem er krydduð með græðgi og einkahagsmunapoti. Sú uppskrift er svo sannarlega úr eldhúsi sjálfstæðismanna. Þeir geta eldað hana fyrir sig en við hin skulum njóta heilnæmari fæðu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Hulda Sigurdís
Hulda Sigurdís
Höfundur er þjóðfræðingur, sagnfræðingur, bókavörður, húsmóðir, sveitastelpa og margt fleira. Fædd og uppalin á Hornafirði, en hef verið búsett á Egilsstöðum síðan 2003. Á eina átta ára dóttur sem heitir Eva Pálína.

Bloggvinir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband