Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Af lærdómi og læraþukli

Þá er fyrstu viku minni á skjalasafninu lokið án stórra áfalla. Ég hef þegar lært heilan helling og þykist m.a. hafa fengið skýringu á þeirri ómældu visku sem skjalaverðir eru þekktir fyrir. Allt þetta magn upplýsinga, gagnlegra og ógagnlegra, sem þeir hafa í höndunum á hverjum degi hlýtur að einhverju leyti að síast inn í heilabú sem áður voru kannski lítið eða ekki notuð. Hvort sem það hefur verið svona mikið af ónýttu plássi í mínu heilabúi eða hvort ég er bara svona móttækileg fyrir upplýsingum þá þykist ég nú þegar vera orðin mun vitrari en áður.

Stútfull af nýrri visku skokkaði ég einn hring í skóginum á sunnudaginn. Þegar komið var að því að teygja á lúnum vöðvum í fótunum fann ég skyndilega hvernig small í... greinilegt að eitthvað hafði gefið sig. Eftir verkjatöflu og svefnlitla nótt fór ég með skankann til læknis. Hann þuklaði og þreifaði þannig að mér leið eins og pattaralegum ásetningshrút. Það er reyndar með því neyðarlegra sem ég hef lent í um dagana að standa á brókinni fyrir framan þennan fjallmyndarlega lækni á meðan hann þuklaði á lærinu á mér... það er eiginlega varla orðið fyndið ennþá Blush En niðurstaðan úr þessum læraþreifingum varð sú að vöðvi aftan í lærinu hefði tognað illilega, hugsanlega rifnað aðeins. Ég skyldi sleppa öllum hlaupum næstu vikurnar og bara taka því rólega.... tek ég hlutunum einhvern tíma öðruvísi en rólega??? hefur stundum skilist að það sé varla bætandi á rólegheit mín.

 


bænin virkar

Nietse kallinn hafði rangt fyrir sér... Guð er ekkert dauður! Hvort sem það er bænum mínum eða einhverju öðru að þakka þá er ég að byrja að vinna á Héraðsskjalasafninu eftir 45 mínútur. Síðan það var afráðið að ég tæki sæti Dísu næsta mánuðinn þá hef ég verið full tilhlökkunar þó að einhver smá kvíði sé farinn að gera vart við sig núna. Er það ekki ósköp eðlilegt þegar maður er í þann veginn að takast á við eitthvað nýtt? Fyrstu vikuna verðum við Guðgeir bara tvö á safninu þannig að hann fær þann heiður að kenna mér og svara mestu aulaspurningum mínum. Hvað um það, þetta verður bara gaman og fjárhagurinn ætti að vænkast.

Sá lærdómur sem ég hef dregið af þessu ferli er að bænin virkar :)


"Númer 12 í röðinni"

Geta sum fyrirtæki verið of stór? Mér finnst a.m.k. betra að skipta við smærri fyrirtæki eða stofnanir sem veita persónulegri þjónustu. Fyrir skemmstu þurfti ég að hringja í þjónustuver Símans... veldu 1 fyrir þetta, 2 fyrir hitt osfrv. og loksins þegar ég hafði valið langa talnarunu eftir tilsögn vélmennis kom annað vélmenni sem sagði "Þú ert númer 12 í röðinni". Þá lagði ég á og er ekki ennþá búin að reyna aftur að ná sambandi við alvöru manneskju hjá þessu risavaxna fyrirtæki.

En að frátöldu þessu smávægilega ergelsi er engin þörf að kvarta þegar blessuð sólin skín og mórautt Lagarfljótið speglar Fellin svo unun er á að horfa. Ég efast um að nokkur hafi betra útsýni úr vinnunni sinni heldur en ég úr litlu bókaverjukompunni í ME. 


Nútímakonan

Þá er afstaðin ein annasamasta vika örþreyttrar nútímakonu í langan tíma. Undanfarnir dagar hafa einkennst af afmælisstandi, skólabyrjun og ritgerðarvinnu auk alls annars. Stelpuafmælið á miðvikudag fór vel fram að öllu leyti, enda var samankomið í Hléskógunum úrval ungra öndvegiskvenna sem án efa eiga eftir að láta að sér kveða í framtíðinni. Það samkvæmi er komið á spjöld sögunnar sem "the pink show" vegna ráðandi litar í fatavali veislugesta. Það sló reyndar smá óhug að móðurinni þegar afmælisbarnið fór að tala um að bjóða líka strákunum í fimm ára afmælið sitt eftir ár. Ekki víst að það verði eins bleikt :) Afmælinu lauk svo formlega á laugardag með heimsókn ættingja sem búsettir eru hér á Héraði. Það samkvæmi fór líka friðsamlega fram þó afmælisbörnin væru tvö, því auk Evu Pálínu átti Svavar Páll afmæli í vikunni.

Ég náði þó að skreppa til Reykjavíkur á fimmtudeginum. Tel mig heppna með þann dag því daginn eftir lá allt innanlandsflug niðri vegna veðurs. Þessi ferð var annars kærkomin afslöppunarferð og það var ósköp ljúft að koma aftur í skólann þó að það væri í mýflugumynd. Við Halldór kennari áttum langan og góðan fund. Hann er mjög sáttur við það sem komið er og er óþreytandi við að hvetja mig áfram þegar allt virðist komið í hnút. Held að ég hefði ekki getað fengið betri leiðbeinanda :) 


Höfundur

Hulda Sigurdís
Hulda Sigurdís
Höfundur er þjóðfræðingur, sagnfræðingur, bókavörður, húsmóðir, sveitastelpa og margt fleira. Fædd og uppalin á Hornafirði, en hef verið búsett á Egilsstöðum síðan 2003. Á eina átta ára dóttur sem heitir Eva Pálína.

Bloggvinir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband