Fátækleg minningarorð

Mig langar að skrifa hér fáein orð til að minnast aðeins kennara míns, Halldórs Bjarnasonar sagnfræðings sem lést síðastliðinn laugardag, fimmtugur að aldri.
Frá því ég hóf nám í sagnfræði fyrir fjórum árum, hef ég átt því láni að fagna að sitja nokkur námskeið undir leiðsögn Halldórs. Betri kennari er vandfundinn. Halldór var einstaklega áhugasamur og hlýlegur kennari, alltaf tilbúinn að hjálpa nemendum í vandræðum.
Þar sem ég hef verið í fjarnámi voru samskipi okkar Halldórs nær eingöngu bundin við tölvuskeyti. Þau skeyti voru mörg og skemmtileg og í gegnum þau sá maður glöggt hversu mikill öðlingur hann var.

Fyrir ári síðan skrifaði ég ritgerð um kjör ómaga á Austurlandi í námskeiði sem Halldór kenndi. Upp úr því fengum við bæði sömu hugmynd, þ.e. að þarna væri komið fínt efni í BA ritgerð. Þannig atvikaðist það að ég byrjaði að vinna að BA ritgerð undir dyggri leiðsögn Halldórs. Oft var ég að því
komin að gefast upp, en alltaf tókst Halldóri að hrista þann aumingjaskap af mér og hvetja mig áfram. Mín fyrsta hugsun eftir að ég frétti um andlát hans var að hætta við ritgerðina. En sú hugsun varði ekki nema örfá sekúndubrot, ritgerðina skal ég klára og tileinka hana minningu hans.


Nýárs blessuð sól

Þá er árið 2009 liðið í aldanna skaut og kemur aldrei til baka. Gott ár fyrir suma, verra fyrir aðra. Fyrir þá sem þetta skrifar var nýliðið ár heldur tíðindalítið, einkenndist af mikilli vinnu og hversdagslegu brauðstriti. En ég er þakklát fyrir árið 2009, þakklát fyrir góða heilsu, þakklát fyrir að mega enn um sinn njóta samvista við mitt nánasta fólk.

En hvað boðar nýárs blessuð sól? (...þ.e. annað en áframhaldandi Icesave umræður.) Ég hef lengi átt mér stóra drauma um bókaútgáfu og útskrift úr Háskólanum. Hugsanlega tekst mér að láta þessa tvo drauma rætast á árinu 2010. Núna stendur valið á milli áframhaldandi vinnu á Héraðsskjalasafninu eða þess að taka námið með trompi og ljúka því í vor. Fjárhagslega er fyrrnefndi kosturinn heppilegri, en þegar allt er lagt saman þá standa þessir kostir nokkuð jafnt. Þetta skýrist allt á næstu dögum, en hvað sem ég geri þá ætla ég að reyna að gera það besta úr því :)


vernd barna eða barnaverndarnefnda?

Síðast hafði ég uppi stór orð um að yfirgefa þetta "blogg Davíðs", en við nánari umhugsun snerist mér hugur. Hví skyldi ég láta karlugluna hafa áhrif á það hvar ég eys úr skálum reiði minnar eða gleði? Þannig að hér er ég enn og fer ekki rassgat frekar en Gunnar forðum.

Nú er mér hinsvegar algjörlega ofboðið með endalausum fréttum af fáránleika barnaverndarmála. Fyrir skemmstu fengum við fréttir af níu ára gömlum dreng sem var með harðneskju tekinn af heimili ömmu sinnar og afa. Í gær var fjallað um sjö ára gamla stúlku sem neitaði að hitta föður sinn. Fyrir tilstilli barnaverndaryfirvalda var aumingja barnið dregið með lögregluvaldi út af heimili sínu í bíl föðurins. Í fréttinni kom einnig fram að faðirinn hefði beitt móðurina og dæturnar ofbeldi. Hagsmunir hvers voru hafðir að leiðarljósi í þessari aðför að saklausu barninu? Var þetta best fyrir barnið? fyrir móðurina? fyrir föðurinn? eða fyrir barnarverndaryfirvöld?

Sjálf hef ég verið í sporum stúlkunnar. Að vísu var ég töluvert eldri en aldur barnsins skiptir ekki öllu máli. Sjö ára gamalt barn veit alveg hvað það vill og hvað ekki, svo mikið veit ég. Þrettán ára gömul neitaði ég algjörlega að heimsækja minn föður sem þó hafði aldrei beitt okkur systkinin ofbeldi eða sýnt okkur harðræði. Ég fékk mínu framgengt og heimsótti hann ekki um tíma, en ég hef oft hugsað til þess með hryllingi ef ég hefði verið send til hans með valdi. Þess vegna á þessi vesalings litla stúlka alla mína samúð og ég vona innilega að hún nái sér eftir þennan hrylling.

Þetta leiðir hinsvegar hugann að því hvers vegna ekki er hægt að hafa betri umsjón með barnaverndarmálum, því auðvitað þarf að vera heiðarlegt fólk sem ber hag barnsins fyrir brjósti í barnaverndarnefndum. Barnavernd er ekki vettvangur fyrir framapot og eiginhagsmuni. 


Kóngurinn með bláu höndina

Enn einu sinni tekst athyglissjúkum miðaldra karlfauski að sjá landsmönnum fyrir umræðuefni. Já auðvitað er Davíð mættur og nú er hann búinn að ná undir sig Mogganum, þessum fornfræga og fyrrum ágæta fjölmiðli sem naut trausts og virðingar þjóðarinnar. Allt sukkið í kringum ráðningu hans er hreint til háborinnar skammar. Ritstjóri og hópur reyndra blaðamanna mátti gjöra svo vel að taka við reisupassanum í gær til að koma sjálfum kónginum í sæti - og vei þeim sem ekki situr og stendur eins og kónginum með bláu höndina þóknast. Hvernig í ósköpunum ætlar Mogginn að halda stöðu sinni sem trúverðugur fréttamiðill með Davíð í brúnni?  

Botn lágkúrunnar (enn sem komið er) var viðtal Katsljóss við Óskar Magnússon, skósvein Dabba kóngs í gærkvöldi. Pínlegra viðtal hef ég ekki séð, enda vakti það með mér svo mikinn viðbjóð að ég horfði ekki til enda! Þvílíkur sleikjuskapur og aulagangur sem kemst fyrir í einum manni! Ég sé hann fyrir mér, sitjandi við fætur Davíðs, hlustandi á hans heilaga boðskap á meðan hann pússar skóna hans eða sleikir á honum tærnar... það fer að sjálfsögðu eftir því hvort Davíð vill. Og nú ætlar Mogginn að færa okkur fréttir af landsmálunum... eins og Davíð vill!

Í mótmælaskyni ætla ég að færa bloggið mitt af vef Davíðs... nánari upplýsingar síðar.

 


Tískuþrællinn

Fyrir skemmstu fjárfesti ég í forláta hlaupabuxum. Ósköp venjulegar að öllu leyti en samt á viðráðanlegu verði. Síðan þessi fjárútlát áttu sér stað hafa umræddar buxur veitt mér mikla vellíðan á skokktúrum mínum um skógarstígana, ekki aðeins vegna þess hve þægilegar þær eru heldur einnig (og ekki síður) vegna þeirrar notalegu tilfinningar að vera "eins og hinir". Það er nefnilega ósjaldan að maður mætir hlaupandi fólki í skóginum og undantekningarlítið er það í svipuðum buxum.

Það er semsagt kominn tími til að horfast í augu við staðreyndir. Ég er þræll tískunnar, harðfullorðin kerlingin!


meira um krumlur sveitarfélagsins

Sumum sveitarfélögum er stjórnað af græðgi frjálshyggjunnar þó að tími hennar sé liðinn og fátt eftir af hennar blómaskeiði nema sviðin jörð og himinháar skuldir. Eitt þessara sveitarfélaga er Fljótsdalshérað sem að mínu mati og margra fleiri fór offari í því gullæði sem ríkti hér fyrir austan. Það var byggt og skipulagt og byggt meira og skipulagt meira eins og þenslan væri komin til að vera. Skýrslum um væntanlega íbúafjölgun sem ekki þóttu nógu hagstæðar var einfaldlega stungið undir stól. En allt tekur enda, nú er sveitarfélagið í djúpum sk... og þá er byrjað að skera niður hjá því hálaunafólki (lesist sem háð) sem vinnur á leikskólunum. Í mínum huga er starfsfólk á leikskólum hetjur. Þetta er fólkið sem elur upp börnin okkar alla virka daga.

Nú er verið að fækka starfsfólki á leikskólunum, hækka leikskólagjöldin, rukka fyrir aukakorter fyrir og eftir vistunartíma og fella niður álag starfsfólks í matartímum. Það er m.ö.o. verið að hækka gjald og skerða þjónustu. Þó ég sé bara fávís þjóðfræðingur, þá hljómar þetta dálítið öfugsnúið. Minnir jafnvel á maðkaða mjölið sem Danir seldu okkur fyrir okurverð á sínum tíma. Til að kóróna svo vitleysuna hefur sú frétt lekið um bæinn að sjálfur bæjarstjórinn hafi verið svo fórnfús að afþakka launahækkun á sama tíma. Er þetta virkilega réttlát stjórnun???

Hvað um það, ég er ánægð með leikskóla dótturinnar og borga leikskólagjöldin með þokkalega glöðu geði. En í staðinn vil ég að barnið mitt sé öruggt í leikskólanum og fái viðunandi þjónustu við kennslu og leiki í þroskandi umhverfi. Til þess að svo megi vera áfram þarf starfsfólkið að vera ánægt í sínu starfi til að sinna því af heilum hug.


krumlur sveitarfélagsins

Enn er seilst í vasa þeirra sem síst mega við nokkurri kjaraskerðingu og nú er það sveitarfélagið sem þykist ætla að ná sér í afréttara eftir góðærisfylliríið í vasa foreldra leikskólabarna. Eftir sumarlokun leikskólanna mun gjaldskráin hækka um 7%. Hækkunin dugar skammt í skuldafen sveitarfélagsins en getur reynst foreldrum erfið. Fyrir venjulegt launafólk sem gerir ekki meira en komast af á milli mánaðamóta getur hækkun sem þessi orðið banabiti, endarnir ná ekki lengur saman. Hvað gerist þá? Jú, sem einstæð móðir á ég rétt á fjárhagsaðstoð hjá mínu sveitarfélagi. Til þessa hef ég ekki þurft á slíkri aðstoð að halda en það gæti farið svo að ég þyrfti að kyngja stoltinu og fara bónleið upp á bæjarskrifstofur. Og ég er ekkert einsdæmi, það eru fleiri foreldrar sem eru í sömu sporum. Þess vegna spyr ég... hvað þarf marga þurfalinga eða sveitarómaga til að éta upp þær krónur sem sveitarfélagið fær við hækkun leikskólagjalda?

Og ég spyr enn og aftur... hvers vegna skyldum við, sauðsvartur almúginn, borga fyrir partí sukkaranna???


hinir djúpu vasar og hjáleiga Hannesar

Hve lengi er hægt að seilast í vasa venjulegs launafólks? Af hverju eru þessir (afsakið orðbragðið) andsk. helv. djö. útrásardrengir og bankamenn svona heilagir? Í morgunfréttum útvarps var sagt frá þeirri hugmynd Félagsmálaráðuneytisins að skerða fæðingarorlof og taka aftur upp tekjutengingu örorkubóta. Í stað þess að leita þangað sem peningarnir eru þá á að halda áfram að níðast á smælingjum þjóðfélagsins, öryrkjum og ungu fólki sem "lendir í því" að eignast börn. Á sama tíma er Hannes Smárason að reyna að selja hjáleigu sína í London fyrir einn og hálfan milljarð!!! Hvers vegna gerir ríkið þessa hjáleigu ekki upptæka? Þó ekki fengist nema milljarður fyrir kotið þá væri það þó smávegis í botnlaust skuldafenið sem m.a. umræddur Hannes kom þjóðinni í. En hjáleiga upp á einn og hálfan milljarð vekur óneitanlega upp spurningar um verðmæti sjálfs höfuðbólsins. 

Nóg af ergelsi í bili. Ég er næstum hálfkomin í sumarfrí. Rétt aðeins kíki við á bókasafninu stöku sinnum en sit sem fastast á skjalasafninu. Þetta lúxuslíf hefur gefið mér kost á því að dusta rykið af BA ritgerðinni. Og svei mér þá, ég held að það sé að koma smá mynd á herlegheitin. Efni hennar, fátækraframfærsla á Austurlandi á síðari hluta 19. aldar, á kannski sérstaklega vel við á þessum síðustu og verstu. Hver veit nema við smælingjarnir verðum boðnir upp og metnir til fiska eins og tíðkaðist fyrir rúmri öld? Það stefnir margt í þá áttina nema við verðum sennilega metin í Evrum.


Féð í landinu

Þessi frétt olli mér gífurlegum vonbrigðum. Ég sá í hillingum æsispennandi fjársjóðsleit á landareignum útrásarvíkinga og bankamanna. En þeir hafa varla grafið góssið í jörð úti í sveit. Sennilega væri nær að fara í þannig fjársjóðsleit á einhverjum Kyrrahafseyjum. En það sakar varla að gera leit á landareignum þeirra í von um að finna öðruvísi fé en ferfætt me-dýr. Eða eru blessuð me-dýrin kannski eina féð sem eftir er í landinu?

 Fé finnst í landi KaupþingsmannaSíðastliðinn mánudag heimtust kindur frá bænum Álftártungu á Mýrum sem ekki hafa komið á hús síðan vorið 2005 þegar fær voru lömb. Það þykir teljast til undantekninga að kindur komi ekki í hús svo lengi. Fréttamiðillinn Skessuhorn segir frá málinu í dag en þar segir að líta beri á að kindurnar héldu sig til á jörð sem eignamenn úr Reykjavík eiga og þar sé sjaldan smalað og nánast enginn umgangur.

Kindurnar höfðu haldið til í landi Hvítsstaða í nágrenni Urriðaár en jörðin er í eigu manna sem tengdust Kaupþingi og má þar nefna Hreiðar Már Sigurðsson fyrrum forstjóra Kaupþings.

Í frétt Skessuhorns segir að kindurnar hafi greinilega haldið til saman en án hrúts og hafa því væntanlega ekki borið lömbum öll þessi ár. Þá segir að þetta hafi því ekki verið sérlega arðbær geymsla á fé í vörslu Kaupþings síðastliðin ár.

um dýra dropa og brotin krosstré

Enn eru stjórnvöld að laumast með gráðugar lúkurnar í götuga vasa almennings, þess almennings sem hefur haldið þjóðinni gangandi um aldaraðir, þess almennings sem stritar myrkranna á milli en getur samt ekki leyft sér að ferðast um á einkaþotum eða slappa af á lúxussnekkjum... eða borða gullkryddað risotto! Nei, þessi almenningur skal sko fá að þrífa skítinn eftir bannsetta gullkálfana sem flestir eru flúnir til útlanda með fulla vasa fjár.

Nú er minni réttlætiskennd stórlega misboðið. Hvers vegna er verið að skattleggja eldsneyti og áfengi? Ég hélt að Steingrímur hefði ætlað að leggja meiri skatt á þá ríku! Er ekki kominn tími til að þeir fari að leggja sitt af mörkum til samfélagsins? Þessi "vökvaskattur" kemur reyndar ekkert sérstaklega við mína léttu pyngju, ég nota bílinn mjög lítið og áfengi enn minna. En engu að síður þá koma þessar hækkanir mest niður á sauðsvörtum almúganum. Og ég sem hélt í einfeldni minni að það væri búið að leggja nóg á okkur almúgann.

Það sem mér finnst þó sárast við þetta er að Steingrímur J stendur á bak við þetta, mitt pólitíska átrúnaðargoð. Svo bregðast krosstré sem önnur tré. Hvað á ég að kjósa næst? Kannski ég fari bara sjálf í framboð... ég er fjandakornið ekkert galnari en þeir sem nú sitja í steinkumbaldanum við Austurvöll.


Næsta síða »

Höfundur

Hulda Sigurdís
Hulda Sigurdís
Höfundur er þjóðfræðingur, sagnfræðingur, bókavörður, húsmóðir, sveitastelpa og margt fleira. Fædd og uppalin á Hornafirði, en hef verið búsett á Egilsstöðum síðan 2003. Á eina átta ára dóttur sem heitir Eva Pálína.

Bloggvinir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband